Spurt og svarað

07. apríl 2005

Getur maður orðið ófrjór af pillunni?

Hæ!

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort maður geti orðið ófjór af pillunni. Mér var sagt að maður mætti ekki sleppa pillunni, annars mætti maður ekki stunda kynlíf í viku eftir á til að forðast þungun. Í síðustu tvö skipti sem ég hef verið með egglos (eða á svipuðum tíma) hef ég gleymt pilunni og ég varð ekki ólétt, þannig að ég fór að hugsa hvort ég yrði ófrjó af pillunni. Ég er búin að vera á Trinnovum í hálft ár þannig að ég hélt að það væru meiri líkur á að ég mundi verða ólétt núna en eftir t.d 1-2 ár. Mér langar rosalega að eignast barn en ég er svo hrædd um að eitthvað gæti gerst ef ég er of lengi á pillunni.

Takk, takk:)

............................................................................

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég ætla að byrja á að biðja þig afsökunar hversu lengi það hefur tekið að svara þessari spurningu en ég vona að það hafi ekki komið að sök. Ég held að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af pilluinntöku þinni og ófrjósemi. Frjósemin kemst í fyrra horf fljótlega eftir að hætt er að taka pilluna. Konum er ráðlagt að hætta að taka inn getnaðarvarnarpilluna nokkru áður en getnaður er fyrirhugaður svo að tíðahringurinn verði reglulegur en það getur tekið nokkra mánuði.
Það er mikilvægt fyrir þig að þekkja eigin tíðahring svo þú vitir á hvaða tíma þú ert frjósöm. Það geturðu fundið út til dæmis með því að fylgjast með breytingum sem eiga sér stað á slími frá leggöngunum. Rétt fyrir egglos eykst slímmagnið frá leggöngum, slímið þynnist og verður teygjanlegt, hlaupkennt og glært. Eftir egglos verður slímið hvítleitt á litinn.

Ef gleymist að taka pilluna minnkar öryggi hennar óneitanlega en þú ættir þó alls ekki að hugsa um ófrjósemi þó að þú hafir ekki orðið barnshafandi við að sleppa pillunni í nokkra daga. Best er að taka pilluna alltaf inn á sama tíma á hverjum degi. Öryggið minnkar ef gleymist að taka pilluna í meira en 12 klukkustundir frá þeim tíma sem hefði átt að taka hana. Þá er öruggar að nota aðra getnaðarvörn samhliða s.s. smokk í 7 daga á eftir.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. apríl 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.