Epi-pen á meðgöngu

15.11.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er í smá krísu og veit ekki alveg hvert ég á að snúa mér. En málið er að ég er ófrísk komin um 8 vikur og er að díla við frekar slæma ógleði og er að lenda í því að kasta upp eiginlega alla daga 1x á dag. En ég er með ofnæmissjúkdóm sem kallast Exercise Induced Anaphylaxis eða bara áreynslu ofnæmi. Ég hef verið að finna fyrir þessu þegar ég kasta upp en þá steypist ég út í ofnæmisútbrotum. Ég hef sem betur fer ekki lent í því ennþá á fá köfnunartilfinningu í kokið en ég hef fundið að ég hef verið nálægt því. En ég vill taka það fram að ég fæ ekki alltaf þessi ofnæmiseinkenni, bara þegar áreynslan er mjög mikil. En þá kemur spurningin mín, er óhætt fyrir ófrískar konur að nota svokallaðan Epipen á meðgöngunni ef til þess kemur? Er svona ofnæmiskast mjög óhollt fyrir barnið og myndi það vera betra fyrir mig að reyna að nálgast einhver lyf við ógleðinni til að koma í veg fyrir það að ég kasti upp og fái þar af leiðandi ofnæmiskast? Vonandi getið þið gefið mér einhver svör en það er erfitt fyrir mig að nálgast ofnæmislæknirinn minn í síma svo ég vill endilega láta reyna á þessar spurningar hér til að byrja með.

Með kveðju.


Sæl og blessuð

Klínísk reynsla af notkun adrenalíns sem er innihaldsefnið í Epi-pen hjá barnshafandi konum er takmörkuð og á eingöngu að nota á meðgöngu ef ávinningurinn er meiri en hugsanleg áhrif á fóstur. En þar sem Epi-pen er notað við bráðaofnæmi sem er lífshættulegt ástand er nokkuð öruggt að ávinningurinn sé meiri en áhættan. Það er hins vegar spurningin hvort þú getir komið í veg fyrir þessi köst með því að taka inn lyf sem geta hjálpað þér við ógleðinni. Þetta eru spurningar sem þú þarft að leita svara við hjá lækni. Ef þú nærð ekki í ofnæmislækninn þinn þá skaltu leita til heimilislæknisins þíns því hann getur örugglega svarað þér.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. nóvember 2007.