Hlé á pilluspjaldi

06.08.2005

Hæ hæ þannig er mál með vexti að ég er búin að vera á yasmine í 3 ár samfleytt og heyrði einhverstaðar að  ég verð að taka einn mánuð í frí reglulega, þannig að ég tók núna seinustu pilluna 15.júní og byrjaði á túr 5 dögum seinna eins og alltaf (er með mjög reglulegar blæðingar). svo tók ég hlé í einn mánuð. Á þessum mánuði svaf ég einusinni hjá kærastanum mínum þar sem hann býr nú úti en við pössuðum okkur í það skipti, samkvæmt mínum útreikningum átti ég að byrja á túr 17 -18 júlí og byrja að taka pilluna tveim dögum síðar. Ég er ekki enn byrjuð á túr sem að mér finnst mjög skrítið en ég byrjaði  samt sem áður á að taka pilluna 19.júlí

Spurning mín er þessi : er eitthvað óeðlilegt við að ég sé ekki byrjuð á túr eða er þetta eðlilegt eftir pilluhlé?
Með fyrirfram þökk og von um skjót viðbrögð
Júlía

...................................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Samkvæmt upplýsingum sérlyfjaskrárinnar hefðir þú átt að bíða eftir blæðingunum þar sem þú hafðir ekki tekið pilluna mánuðinn á undan og byrja að taka pilluna á fyrsta degi blæðinga.  Þegar þú hættir að taka pilluna getur komið óregla á blæðingar þar sem þú hættir að taka þá hormóna sem eru að stýra þeim.  Auðveldast fyrir þig er að taka þungunarpróf til að vera viss um að þú sért ekki ólétt og byrja á nýju spjaldi á fyrsta degi næstu blæðinga, þá ertu að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum framleiðandans. 
Gangi þér vel!

Bestu kveðjur
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
3. ágúst 2005