Spurt og svarað

10. september 2012

Hormónalykkjan

Konan mín fékk hormónalykkjuna eftir að við eignuðumst síðasta barn. Eftir að hafa pælt svolítið vel í okkar vandamáli, tel ég að hún gæti verið að slökkva á allri löngun hjá henni, þar sem við vorum töluvert virk áður en hún fékk hana, ástæðan fyrir því að hún fór á þessa getnaðarvörn var eftir töluverðar pælingar og lestur og komumst að þeirri niðurstöðu að þar sem hormónin í henni eiga að vera staðbundin að þá ættu þau að hafa lítil sem engin áhrif (hún er búin að prófa flest annað, pillan og aðrar hormóna getnaðarvarnir fara skelfilega í hana). Lykkjan hefur litlar sem engar aukaverkanir nema að því leiti að öll löngun hverfur þ.e. löngun er til staðar í hausnum á henni en líkaminn er ekki mótækilegur og erfitt að fá fullnægingu nema 2 daga í mánuði. Hún er líka búin að prófa koparlykkjuna, hún skapaði bara vanlíðan og blæðingar sem hættu ekki nema þegar hún fór til læknis að leita hjálpar við því, smokkur er ekki að virka vel hjá okkur þar sem annað okkar er með latexofnæmi og yrði kostnaðurinn við að nota latexfría hrikalega mikill (fáránlegt verðlag á þeim). Þannig að mín spurning er þar sem við erum að stærstum hluta stjórnuð af hormónum, er hægt að vera á hormónalykkjunni og fá auka testósteron skammt með (þar sem að það er jú hormónið sem knýr okkur áfram á þessu sviði) eða hafið þið önnur ráð.
Kv
Sæll vertu!
Þetta vandamál sem þú lýsir er vel þekkt með hormónalykkjuna, venjulega dregur úr þessum áhrifum þegar lykkjan hefur verið til staðar í um 2 ár.
Stundum getur konan unnið með þetta vandamál með sjálfri sér, annað er í raun ekki hægt að gera nema að bíða og vona að áhrif lykkjunar á kynlöngun minnki. Hormónalykkjan er góð getnaðarvörn sem er þess virði að gefa tíma ef hún veldur ekki öðrum aukaverkunum.
Varðandi spurningu þína um möguleikann á hormónagjöf til að vinna á móti þessum áhrifum er svarið nei, konum á barneignaraldri er ekki gefið testósteron í þessum tilgangi.
Ef þetta virkar ekki fyrir ykkur er alltaf möguleiki að láta fjarlægja lykkjuna, ófrjósemisaðgerð er annar möguleiki ef þið hafið ekki í huga að eignast fleiri börn.

Vona að þetta hjálpi.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. september 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.