Hormónalykkjan og blæðingar

04.12.2008

Ég vil nú byja á þvi að þakka ykkur fyrir þessa góðu heimasíðu:)

Ég hef verið með hormónalykkjuna íí ár, ég var í byrjun með blæðingar (mismiklar) í ca 5 mánuði, en ákvað að þrjóskast áfram vegna þess að ég þoli ekki pilluna. Venjulega liðu alveg 6-7 vikur á milli blæðinga hjá mér og ég fann á þessu tímabili fyrir aukinni brjóstaspennu og smá flökurleika, en blæðingarnar voru alveg í 2 vikur.

Núna nýlega fór maðurinn minn að vinna í útlöndum í mánuð og þar af leiðandi stundaði ég ekki neitt kynlíf á meðan, en var þá bara með ca. 4 vikur á milli blæðinga og þær stóðu í viku eins og ég var vön að hafa áður en ég fékk mér hormónalykkjuna. Það sem ég er að pæla - getur verið að ég verði alltaf ófrísk og það verði fósturlát hjá mér og ég byrji þá á blæðingum?  Ef svo er þá er þessi vörn ekki að virka fyrir mig!

Með von um skjót svör, kveðja Anna


 Komdu sæl Anna

Mér finnst það afar ósennilegt að þú verðir ólétt í hverjum tíðahring.  Ég held frekar að um tilviljun hafi verið að ræða að blæðingarnar breyttust hjá þér þegar maðurinn þinn fór út.  Einkennin sem þú lýsir geta komið fram þegar líður að blæðingum, þetta eru ekki endilega þungunareinkenni þó þau séu svipuð.

Ef þú ert ekki sátt við hormónalykkjuna og þessa óreglu skaltu endilega hafa samband við lækninn þinn og ræða þetta við hann.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
4. desember 2008