Hormónalykkjan og utanlegsfóstur

14.09.2007

Sælar frábæru ljósmæður með þennan æðislega vef:-)
Fyrir stuttu fékk ég mér (hormóna)lykkjuna sem fer vel í mig hingar til.  Ég hef þó heyrt að ef konur verði þungaðar með lykkju sé fóstrið gjarnan utan legs. Utanlegsfóstur eru töluvert algeng í minni ætt þótt sjálf hafi ég ekki reynt það. Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? 


Komdu sæl

Þar sem lykkjan á að koma í veg fyrir þungun og gerir það í langflestum tilvikum þá held ég að ekki sé um raunverulegt vandamál að ræða.  Lykkjan er mjög örugg getnaðarvörn.  Hinsvegar er gott fyrir þig að vita þetta EF þú yrðir ólétt á lykkjunni og gætir þá verið á varðbergi fyrir einkennum utanlegsfósturs eins og kviðverkjum og blæðingum og leitað þá strax til læknis.

Með kveðju

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. 
14.sept. 2007.