Spurt og svarað

17. febrúar 2005

Koparlykkjan - aukin útferð og ?þyngsli? frá legi

Þannig er málum háttað hjá mér að ég lét setja í mig koparlykkjuna í byrjun janúar sl. Áður hafði ég verið á pillunni í 12 ár með tveimur hléum vegna skipulagðra barneigna. Fyrst eftir að ég fékk lykkjuna blæddi í viku eða svo, mismikið líklega bara eðlilegt. Svo hætti að blæða og við tók mikil útferð og núna er ég búin að vera með mjög mikla útferð í 3 vikur. Þegar ég segi mjög mikla þá miða ég við afar litla útferð á meðan ég var á pillunni. Hún er ljóslit og engin áberandi lykt af henni en kemur í miklu magni. Nú skil ég konur sem þurfa að nota innlegg alla daga! Auk þess hef ég fundið fyrir smá „þyngslum“ í leginu og stundum pínu seyðing. Einnig er svæðið í kringum barmana oft þrútnara en vanalega en enginn sviði eða kláði. Getur verið að þetta stafi af breyttum hormónabúskap líkamans eða viðbrögðum líkamans við þessum nýja aðskotahlut?

Ég hef ekki tekið þungunarpróf líklega vegna þess að ég trúi ekki að ég gæti verið ólétt. Búin að vera á getnaðarvörnum og farið á blæðingar síðast um áramótin. Það er náttúrulega alltaf fræðilegur möguleiki, en ef svo ólíklega vill til, skaðar lykkjan e-ð í því sambandi? Mælið þið með því að ég taki slíkt þungunarpróf.

Fyrirfram þökk.

................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Blæðingar og jafnvel smá óþægindi teljast eðlileg fyrstu dagana eftir að lykkjan er sett upp. Þær aukaverkanir koparlykkjunar sem oftast eru nefndar eru óreglulegar blæðingar, meiri blæðingar, auknir túrverkir og sýkingar. Einkenni sýkingar geta verið verkir við eða eftir samfarir, mikil útferð, verkir neðarlega í kviðarholi eða baki og óreglulegar blæðingar. Þar sem þú talar bæði um seyðing og „þyngsli“ frá leginu og aukna útferð þá finnst mér rétt að þú hafir samband við þann lækni sem sett upp lykkjuna hjá þér þar sem um sýkingu gæti verið að ræða.

Það er sakar auðvitað ekki að taka þungunarpróf því ef þú ert þunguð þá þarf að taka lykkjuna niður sem fyrst.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
17. febrúar 2005.

 

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.