Spurt og svarað

16. febrúar 2005

Líkur á þungun - ældi upp pillunni og gleymdi líka að taka í 2 skipti

Halló ég er 16 ára og er á pillunni. Um daginn þá ældi ég upp pillunni og gleymdi henni svo í tvö næstu skipti. Eru miklar líkur á því að ég sé ófrísk? Vonandi fæ ég svar sem fyrst því ég er að deyja úr áhyggjum.

.............................................................

Komdu sæl.

Þegar gleymist að taka pilluna og ég tala nú ekki um í nokkra daga þá aukast líkurnar á þungun þ.e.a.s. ef samfarir hafa átt sér stað. Í raun er pillan ekki 100% örugg fyrr en þú ert búin að taka hana í 14 daga samfellt.  Því hvet ég þig til að nota smokkinn með pillunni næstu tvær vikur.  Ef þú hefur áhyggjur af því að þú sért ófrísk mæli ég með því að þú fáir þér þungunarpróf í næsta apóteki.

Að lokum ef þú ert oft að gleyma pillunni ættir þú kannski að huga að einhverjum ráðum til að muna eftir henni t.d. með því að stilla símann þinn og láta hann minna þig á hana.  Sumum finnst ágætt að líma pilluspjaldið á tannkremstúpuna eða spegilinn.  Ef þessi ráð virka ekki er spurning hvort þú ættir að huga að öðrum getnaðarvörnum t.d. getnaðarvarnarsprautunni.

Gangi þér vel,

Málfríður Stefanía Þórðardóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
16. febrúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.