Spurt og svarað

31. janúar 2014

Lykkjan og verkir

Sælar elskurnar
Ég fékk hormónalykkjuna fyrir rúmu ári, hún var sett upp vegna mikla blæðinga sem valda járnskorti, fyrstu mánuðina var ég með endalausa verki, og endaði á að fá neyðartíma hjá kvensjúkdómalækni sem var ekki minn læknir því verkirnir voru svo miklir. Hann ómskoðaði mig og það voru engar bólgur, hann klippti þráðinn og sagði mér að þetta væri örugglega bara vegna þess ég hafði ekki átt barn og ætti bara bíða og sjá. Þegar þetta var, var ég búin að vera með hana í 4 mánuði og það blæddi stundum eftir kynlíf. Í dag eru verkirnir ekki svona miklir en fæ verki eftir kynlíf og ræktina, en ekkert hefur blætt í 6 mánuði. Nú er ég forvitin áður en ég panta mér tíma hjá kvensjúkdómalækni, hvort það sé til einhver önnur lausn eða úræði sem ég gæti skoðað ef ég læt fjarlægja hana til að blæðingar stöðvist. Eða eru þessir verkir kannski bara eðlilegir, fæ sting í legið og þeir eru alveg til staðar næstu 2 tímana, koma og fara.Sæl
Einkennin sem þú lýsir, þ.e. verkirnir eru líklega aukaverkun af lykkjunni. Í um 10% tilfella fá konur slæmar aukaverkanir af hormónalykkjunni og um 12% þeirra fá verki í kvið eða á grindarbotnssvæði. Það er um 1 af hverjum 100 konum sem nota hormónalykkjuna. Þessir verkir eru ekki eðlilegir og mér finnst þú nú ansi þolinmóð að hafa haldið þetta svona lengi út. Það er til pilla, brjóstapillan sem hefur sömu aukaverkanir og hormónalykkjan, þ.e. að blæðingar geta stöðvast. Svo kannski er hún góður kostur fyrir þig. Brjóstapillan er reyndar viðkvæmari en samsettar pillur, þ.e. það þarf að taka hana nokkuð nákvæmlega svo hún sé örugg.
Ég ráðlegg þér eindregið að panta þér tíma hjá kvensjúkdómalækni og ræða vel við hann/hana um góða getnaðarvörn fyrir þig.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. janúar 2014


Heimild: http://www.mirena-us.com/
http://labeling.bayerhealthcare.com/html/products/pi/Mirena_PI.pdf

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.