Spurt og svarað

07. desember 2009

Miklar blæðingar á lykkjunni

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Nú er ég með Koparlykkjuna og hef verið með í 11 mán. Núna er ég á blæðingum nr. 2 eftir að ég átti stelpuna. Fyrstu blæðingar voru fyrir 7 vikum. Fyrstu blæðingar voru "venjulegar", ekkert áberandi meiri blæðing eins og búið var að vara mig við að gæti gerst með lykkjuna.  Núna er ég á blæðingum 2 og var búin að fjárfesta í mánabikarnum. Á bikarnum eru merkingar sem segja til um hversu mikið blóð er í bikarnum, en hann tekur mest 30 ml. Bara í dag er ég búin að tæma 130 - 150 ml, í gær 60 ml og eitthvað minna fyrstu dagana. Mér finnst þetta óhugnanlega mikið magn, og fór því að "gúggla" og á vefnum er að finna misvísandi upplýsingar um norm blóðmagns á blæðingum. Mayo clinic segir að normal kona missi 30 - 44 ml meðan að femin segir að normið sé 80 - 100 ml.  Hvort er réttara og er hættulegt að missa svona mikið blóð eða er þetta kannski bara normið ef maður er með lykkjuna?  Hvenær telst "blóðmissir" á blæðingum vera of mikill?  Maður er svo grænn eitthvað.

Með fyrirfram þökk fyrir svarið.


Komdu sæl.

 

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af magni tíðablóðs nema þú sért farin að finna fyrir blóðmissi eins og slappleika, svima og slíkt.  Magn tíðablóðs er misjafnt milli kvenna og milli blæðinga.  Það sem er eðlilegt fyrir eina getur verið óeðlilega mikið fyrir aðra.  Sumir vilja meina að konur ættu að taka járn ef blæðingar eru miklar en ég myndi ráðleggja þér að láta a.m.k. mæla Hemoglobinið þitt fyrst (blóðrauði, segir til um hvort þú þurfir að taka járn), eða tala við lækni sem vill þá kannski taka frekari blóðprufur. 

Ástæðan fyrir mismunandi tölum sem þú finnur er sennilega það að blóðið blandast öðrum vökva á leið sinni úr líkamanum þannig að ekki er um hreint blóð að ræða sem þú sérð í álfabikarnum.  Sumir eru því að tala um magn hreins blóðs meðan aðrir tala um heildarmagnið.  Ég myndi þó ekki vera að  hafa áhyggjur af tölunum heldur hvernig þér líður.  Sjáðu aðeins til og vittu hvernig þetta þróast.  Ef þér finnst þetta óeðlilegt og líður illa með þetta ráðlegg ég þér að tala um það við lækninn þinn.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. desember 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.