Spurt og svarað

02. október 2005

Mínípillur, samsettar pillur og hormónahringur

Sælar ljósmæður!

Ég var að lesa fyrirspurn um Cerazette pilluna, þar segið þið að maður geti notað hana áfram þó svo brjóstagjöf sé hætt. Ég er mjög ánægð með þessa pillutegund og væri til í að nota hana áfram en er hún eins örugg og hinar samsettu pillutegundirnar? Hafa Cerazette og aðrar eins hormóna tegundir minni aukaverkanir eins og t.d. kyndeyfð og þyngdaraukning en tveggja hormóna tegundir? Mig langar líka að spyrja ykkur hvort hormónahringurinn hafi minni hormóna áhrif en venjulega pillan.

Bestu kveðjur, Pilla ;)

..................................................................

Sæl Pilla og takk fyrir að leita til okkar!

Í Sérlyfjaskránni á vef Lyfjastofnunar er m.a. að finna eftirfarandi upplýsingar um Cerazette:

„Cerazette er mínipilla, sem inniheldur prógestógenið desógestrel. Eins og á við um aðrar mínipillur hentar Cerazette best konum sem eru með barn á brjósti og konum sem geta ekki eða vilja ekki nota östrógen. Gagnstætt hinum hefðbundnu mínipillum fæst getnaðarvarnandi verkun Cerazette aðallega með því að hindra egglos. Önnur verkun felur í sér aukið seigjustig í slímu legháls.“

Minnkuð kynhvöt og þyngdaraukning eru meðal mögulegra aukaverkana en algengasta aukaverkunin er blæðingaóregla, sérstaklega í byrjun notkunar. Með tímanum geta blæðingar fallið niður. Einn ókostur við mínípillur er hversu mikilvægt er að taka þær á nákvæmlega sama tíma á hverjum degi til að tryggja öryggi sem er um 99% ef pillan er tekin rétt. Inntaka mínípillunnar má ekki skeika um meira 3 tíma en inntaka samsettu pillunar um 12 tíma. Almennt er talið að mínípillur henti sem getnaðarvörn fyrir konur með barn á brjósti og konur sem eru eldri en 35 ára en konum sem eru eldri en 35 ára eða reykja er ráðlagt að nota ekki samsettar pillur. Öryggi samsettra pilla og mínípilla er mjög svipað.

Hormónahringurinn inniheldur bæði östrógen og prógestron en skammturinn sem losnar daglega er aðeins um 1/3 af því sem samsetta pillan inniheldur. Öryggið er það sama og pillunnar en aukaverkanir minni.

Á vef Landlæknisembættisins er að finna aðgengilegan bækling um getnaðarvarnir á PDF formi þar sem hægt er að lesa um kosti, ókosti, öryggi, verkun og fleira um getnaðarvarnir.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.