Mjólk en ekki ólétt

16.06.2013
Sæl
Langar svo að athuga hvort þið hafið einhverja skýringu fyrir mig! Ég er á getnaðarvarnarsprautunni, þungunarpróf gefur neikvætt en í dag meðan ég fór í sturtu fór að leka mjólk úr brjóstunum! Ég er bara alveg týnd! þegar ég tók þungunarprófið þá var það til að útiloka þungun, þar sem ég bý ekki með barnsföður mínum en eigum saman 2 börn fyrir og ekki tilbúin í 3ja barnið og höfum bara alls ekki efni á því einsog staðan er í dag! Svo ef ég kemst að því að ég er þunguð núna eru þá einhverjir möguleikar á fóstureyðingu? Ég veit þetta er ruglingslegt en vonandi getið þið hjálpað mér um svör!
Kveðja HJ
Komdu sæl.
Samkvæmt fylgiseðli getnaðarvarnarsprautunnar er mjólkurseyting ein af aukaverkunum hennar og kemur fyrir hjá 1-10 af hverjum 1000 sem nota þetta lyf.
Í sambandi við þungun er erfitt að segja. Ef getnaðarvarnarsprautan er notuð rétt er hún 99% + örugg og því sáralitlar líkur á þungun. Sum lyf og náttúrulyf geta haft áhrif á öryggi sprautunnar og er því mikilvægt að láta lækni vita ef einhver lyf eru tekin. Þegar sprautan er notuð þarf að útiloka þungun áður en næsta inndæling er gefin ef meira en 13 vikur líða á milli inndælinga. Ef meira en 13 vikur hafa liðið á milli inndælinga hjá þér eru auknar líkur á þungun.
Ég myndi ráðleggja þér að fara til læknis til að staðfesta hvort um þungun sé að ræða. Ef svo kæmi í ljós að um þungun sé að ræða þarf að meta meðgöngulengd og eftir það getur þú tekið ákvörðun um framhaldið.
Samkvæmt íslenskum lögum skal framkvæma fóstureyðingu eins fljótt og auðið er og helst fyrir 12. viku. Fóstureyðingu skal aldrei framkvæma eftir 16. viku nema fyrir hendi sé ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður.
Ég vona að þetta svar hafi hjálpað og gangi þér vel.


Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16.júní 2013