Spurt og svarað

20. janúar 2007

Náttúrlega aðferðin sem getnaðarvörn

Sælar!

Ég á 8 vikna dreng. Ég vil nota náttúrulegu getnaðarvörnina (fylgjast með hitastigi og tíðahringnum). Hvernig nákvæmlega fer ég að því? Og get ég byrjað að nota hana áður en ég byrja aftur á blæðingum.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er erfitt að nota þessa aðferð sem þú ert að tala um svona stuttu eftir barnsburð, þar sem þú hefur ekki blæðingar ennþá og erfitt er að fylgjast með hitanum þar sem hann getur verið svo óreglulegur þegar konur eru með barn á brjósti.  Nú veit ég ekki hvort þú hefur barn þitt á brjósti en ég geri þó frekar ráð fyrir því, þar sem flestar (98%) kvenna hafa barn sitt á brjósti eftir fæðingu.  Hins vegar er sagt að brjóstagjöf sé eina náttúrlega getnaðarvörnin sem til er.  Engin tæknileg getnaðarvarnaraðferð getur haft jafnmikil áhrif á fólksfjölgun í heiminum og langvarandi brjóstagjöf.  Ef barnið sýgur oft á sólahring og brjóst er gefið á nóttu til, líða oft margir mánuðir þar til egglos verður og frjósemi kemur aftur.  Árið 1999 staðfesti Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) að brjóstagjöf virkaði sem örugg getnaðarvörn fyrstu 6 mánuðina eftir fæðingu fyrir mæður sem eru eingöngu með börnin á brjósti.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að brjóstagjöf er 98-100% örugg sem getnaðarvörn að þrem skilyrðum uppfylltum:

  • Tíðablæðingar eru ekki byrjaðar á ný (blæðingar á fyrstu 8 vikunum eru ekki taldar vera tíðablæðingar)
  • Barnið fær ekki reglulega ábót og ekki líða meira en 4 tímar á milli gjafa á daginn eða 6 tímar á nóttunni (barnið er eingöngu eða nær eingöngu á brjósti).
  • Barnið er ekki eldra en 6 mánaða.


Vona að þetta svari spurningu þinni.   Gangi þér vel!

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.