Neyðargetnaðarvörn

27.04.2004

...sko í gær þá hitti ég vin minn og við hittumst dálítið oft nú orðið og sofum saman.  Í gær þá gerum við það nema hvað að smokkurinn klikkaði...

Ég er ekki á neinni getnaðarvörn og það fór náttúrlega allt inni í mig í gær. Ég byrjaði á túr fyrir 9 dögum og ég veit ekkert.  Gæti ég orðið ólétt núna?  Er ekki sæðisdrepandi krem í öllum smokkum?  Ég veit að þetta passar ekki inn hérna en er möguleiki á frjóvgun?

Ein í vanda.

..................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur þessa fyrirspurn!

Það er vissulega möguleiki á því að þú getir orðið þunguð þar sem getnaðarvörnin brást ykkur í gær.  Mér heyrist á þér að þungun sé ekki æskileg og því vil ég benda þér á þann möguleika að nota svokallaða neyðargetnaðarvörn.  Þetta eru tvær töflur og fyrri töfluna er best að taka inn sem fyrst og nauðsynlegt að taka hana innan 72 klukkustunda frá óvörðum samförum.  Seinni taflan er tekin 12 - 16 klukkustundum eftir þá fyrri.  Þú getur nálgast þessa pillu í næsta apóteki án lyfseðils og þar muntu fá allar upplýsingar um notkun. 

Þú getur nálgast meiri upplýsingar um neyðargetnaðarvörnina á Forvarnir.com og vef Lyfju.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 27. apríl 2004.