Ófrjósemisaðgerð eftir fæðingu

25.03.2008

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Nú er svo komið að ég geng með mitt fjórða barn og á von á mér í júní. Ég er þrjátíu og tveggja ára og við höfum ákveðið að eiga ekki fleiri börn og mig langar að forvitnast um ófrjósemisaðgerð fyrir mig. Það sem mig langar að vita er hvort þessi aðgerð sé gerð um svipað leyti og barnið fæðist eða hvort einhver tími þurfi að líða frá fæðingu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að láta gera þetta á svipuðum tíma, þegar pabbinn er heima og þegar hvíldin er algjör, þannig lagað. Ég las líka á vefnum um nýja tækni þar sem notaðir eru gormar sem eru settir inn í eggjaleiðarana og örvefur látinn loka leiðurunum? Er þetta orðin algeng aðgerð, þ.e. gerð á Íslandi?

Með kæru þakklæti.


Sæl og blessuð!

Það er mögulegt fyrir þig að fara í ófrjósemisaðgerð fljótlega eftir fæðingu. Ég veit því miður ekki hvort það tíðkast að nota þessa gormaaðferð hér á landi. Þú þarft að ræða þetta við kvensjúkdómalækni sem getur örugglega svarað þínum spurningum.

Á vef Landlæknisembættisins er bæklingur um getnaðarvarnir þar sem m.a. er fjallað um ófrjósemisaðgerðir.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. mars 2008.