Spurt og svarað

16. nóvember 2006

Ófrjósemisaðgerð í keisara

Sæl!

Þannig er mál með vexti að ég fór í ófrjósemisaðgerð fyrir 10 mánuðum síðan og er mjög sátt við það. Síðan þá hefur ég heyrt frá vinum og kunningjum að þetta sé nú ekki skothelt og með þeim fullyrðingum fylgja gjarnan sögur af konum sem urðu óléttar eftir að hafa verið teknar úr sambandi. Nú er svo komið fyrir mér að ég er komin nokkra daga fram yfir og með hellingseinkenni sem bæði geta átt við um blæðingar sem eru að koma eða óléttu. Mig langar því að spyrja hversu örugga vörn þú telur þetta. Ef það gefur þér einhverja vísbendingu um öryggið þá voru sem sagt settar klemmur á leiðarana þegar verið var að sækja yngsta barnið mitt með keisara. Mig minnir að fæðingalæknirinn hafi talað um að meiri líkur væri á að svona aðgerð myndi misheppnast ef kona er nýbúin að eiga vegna þess að þá væru eggjaleiðararnir eitthvað bólgnir. Er eitthvað minna öryggi í að setja klemmur heldur en að klippa á leiðarana? Ég er farin að hafa virkilegar áhyggjur af þessu, og þó svo ég sé ekki ólétt núna þá finnst mér ég einhvern vegin ekki nógu örugg. Er eitthvað til í því?

Bestu þakkir fyrir svör, Ófrjó?


 
Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Ófrjósemisaðgerð á konum þykir almennt mjög örugg getnaðarvörn en þó er ófrjósemisaðgerð á körlum almennt öruggari og mun minna inngrip. Talið er að ófrjósemisaðgerð kvenna veiti yfir 99% örugga getnaðarvörn. Það er rétt hjá þér að öryggið er eitthvað minna þegar ófrjósemisaðgerðin er gerð í keisara en þó á hún að veita meira en 99% öryggi.

Það er sjálfsagt fyrir þig að taka þungunarpróf ef þú telur að þú sért barnshafandi núna því þetta er vissulega ekki 100% öruggt. Ef þú ert þunguð þá ættir þú að hafa samband við kvensjúkdómalækni til að fá staðfestingu á að fóstrið sé innan legsins því tíðni utanlegsfóstra en mun meiri þegar þungun verður eftir ófrjósemisaðgerð.

Vona að þetta svari spurningunum.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.