Spurt og svarað

16. september 2004

Ólétt með lykkjuna?

Ég ætlaði að athuga hvort að það sé möguleiki að maður geti orðið ófrískur með lykkjuna. Þannig er að ég er með barn á brjósti og byrjaði í fyrsta skipti á blæðingum 7. águst, þá var stelpan 9 mán., og siðan hef ég ekki fengið blæðingar í september og er eins og ég sé með endalausa túrverki, og ég tók próf um daginn og það var neikvætt.

Hvað getur þetta verið?

............................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Það er alveg möguleiki að konur verði ófrískar á lykkjunni. Hún er talin vera 97-98% örugg á móti nærri 100% öryggi getnaðarvarnarpilla sé hún rétt notuð. En þar sem þú ert með barn á brjósti og ert með lykkjuna þá eru líkurnar á þungun mjög litlar.

Fyrstu blæðingar eftir barnsburð geta verið óreglulegar og mismiklar og getur það eitt og sér skýrt út af hverju þú ert ekki byrjuð á blæðingum aftur. Þú segir ekki hvenær þú fékkst lykkjuna en hafi hún verið sett upp nýverið geta þessir "endalausu túrverkir" verið vegna þess að hún er að erta legið og leghálsinn og er í raun að koma sér fyrir.

Þú tekur ekki fram hvers konar lykkju þú ert með en ef þú hefur svokallaða hormónalykkju þá geta blæðingar minnkað verulega og í stöku tilfellum hverfa þær alveg.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn þinni,

með kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
16. september 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.