Spurt og svarað

13. júlí 2005

Ólétt þrátt fyrir neyðarpilluna?

Sæl

Það er eitt sem ásækir mig alveg hrikalega og ég var að vona að þú gætir kannski hjálpað mér. Vil taka það fram að tíðarhringurinn er 28 dagar og ég er alveg eins og klukka varðandi að byrja á réttum tíma. Það er þannig að ég hafði rofnar samfarir þann 8. ágúst (hann fékk það ekki) og ég tók líka neyðarpilluna daginn eftir til öryggis. Svo byrja ég á venjulegum túr þann 13. ágúst. Gæti ég hafa orðið ófrísk og samt farið á blæðingar?  Svo svaf ég hjá þann 23. ágúst og þá vorum við ekkert að passa okkur og engar varnir notaðar. Þann 3. jan. fer ég í 20. vikna sónar og þá er mér sagt að ég sé gengin 19. vikur og 2 daga. Er mikil skekkja í sónarnum og hvor
þætti þér líklegri til að vera faðir barnsins míns?

Með von um svörun (mér líður alveg hrikalega illa útaf þessu, vantar bara
að fá staðfestingu frá e-m sem veit hvað hann er að tala um)

............................................................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Fyrst vil ég taka það fram að rofnar samfarir eru aldrei örugg getnaðarvörn jafnvel þó maðurinn fái ekki fullnægingu.  Varðandi það hvor er líklegri tl að vera faðir barnsins er einungis hægt að svara fullkomlega með dna prófi.  

Ég reyni að svara þessu miðað við að tíðahringurinn sé alltaf 28.dagar hjá þér.  Egglos er 14 dögum fyrir blæðingar.  Miðað við að þú hafir byrjað á blæðingum 13. ágúst hefur egglos verið hjá þér þann 30. júlí.  Ef þú ert svona regluleg og þar sem neyðargetnaðarvörnin er talin vera 95% örugg ef hún er tekin rétt þá ætti í raun að vera ólíklegt að þú hafir orðið þunguð í það skiptið.  Það er ýmislegt sem getur ruglað tíðahringinn eins og mikið álag bæði andlegt og líkamlegt, lélegt næringarástand og þannig fram eftir götunum. 
Ef þú telur til baka frá 3. janúar 19 vikur og 2 daga til baka ætti getnaður að hafa orðið 21. ágúst.  Sónarinn getur alltaf skeikað eitthvað, þetta eru auðvitað bara vélar og fólk sem stýrir þeim en hann er samt nokkuð nákvæmur.

Því þykir mér líklegra að seinni maðurinn sem þú varst með sé faðirinn.

Gangi þér vel

Kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
13. júlí 2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.