Spurt og svarað

10. janúar 2014

Óléttueinkenni á Cerazette

Góðan daginn.
Nú hef ég verið á Cerazette brjóstapillunni í 5 mánuði og hef verið að passa mig að taka hana reglulega, alltaf á sama tíma (fékk reyndar gubbupest í lok okt.). Ég hætti að fara á blæðingar um leið og ég byrjaði á henni. Ég hef lítið sem ekkert fundið fyrir aukaverkunum þangað til fyrir svona 2 vikum, þá fór ég að finna fyrir miklu hormónaójafnvægi, miklum túrverkjum sem leiða aftur í bak og niður í nára. Mér fór að verða illt í geirvörtunum þegar ég gaf drengnum mínum brjóst o.s.frv. Ég er búin að prófa að taka þungunarpróf en það var neikvætt. Er fræðilegur að ég gæti verið ólétt eða er eðlilegt að finna fyrir svona miklum aukaverkunum löngu eftir að ég er byrjuð á pillunni. Svo er annað, ég er að taka Sertral vegna fæðingarþunglyndis. Er það eitthvað sem gæti haft áhrif á pilluna?
Kær kveðja Ein með pínu áhyggjur!
Komdu sæl.
Með Cerazette brjóstapilluna þarf maður alltaf að taka hana á réttum tíma til þess að hún sé örugg eins og þú hefur verið að gera. Samkvæmt fylgiseðli Cerazette kemur fram að ef uppköst verða innan 3-4 klst eftir inntöku töflunnar getur verið að virka efnið hafi ekki frásogast í það miklu magni að full verkun hafi náðst. Einnig á það við eftir mikinn niðurgang. Það gæti verið einhver möguleiki á þungun ef þú hefur fengið magapest
Ef þig grunar að þú sért ólétt þarftu að hafa samband við lækni og fá það staðfest að ekki sé um þungun að ræða og hætta að taka pilluna þangað til að sá grunur er staðfestur.
Cerazette getur haft áhrif á verkun ákveðinna lyfja annað hvort aukið verkun þeirra eða getur dregið úr verkun. Í fylgiseðli Cerazette er talað um að láta lækni vita ef þú ert að taka lyf við vægu þunglyndi og þá er sérstaklega að vera að tala um náttúrulyfið Jóhannesarjurt en sýnt hefur verið fram á að hún geti minnkað virkni pillunnar. Í fylgiseðli fyrir Sertral eru taldir upp nokkrir lyfjaflokkar sem þarf að láta lækni vita að maður sé að taka áður en skrifað er upp á Sertral en í þeim flokkum er ekki talað um getnaðarvarnarpillur. Það er alltaf mikilvægt að láta lækni vita ef maður er á einhverjum lyfjum þegar hann skrifar upp á Cerazette og myndi ég því ráðleggja þér að fara til læknis og fá staðfest hvort að um þungun sé að ræða og spjalla við hann um þau lyf sem þú ert að taka og hvort að þessi 2 lyf hafi áhrif á hvort annað.
Ég vona að þessar upplýsingar hjálpi og gangi þér vel.


Með kveðju,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir/hjúkrunarfæðingur,
10. janúar 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.