Spurt og svarað

03. apríl 2005

Pillu fyrirspurn

Hæ hæ,
Ég eignaðist lítinn engil um miðjan desember sl. og fékk pilluna Cerazette í eftirskoðuninni (6v) og hef tekið hana í rúman mánuð núna. Ég er búin að vera á túr aðra hvora viku síðan ég byrjaði að taka hana. Er það  normal? Ég hef verið á pillunni yasmin og þá lenti ég ekki í neinum vandræðum með blæðingar og hef reyndar aldrei lent í því að vera á blæðingum lengur en í 4 daga og það bara einu sinni í mánuði og er orðin svolítið þreytt á þessu.
Svo langar mig að vita hvenær það sé í lagi að nota túrtappa eftir fæðingu?
Með von um skjót svör.

-----------------------------------------------------

Komdu sæl og þakka þér fyrir að leita til okkar.
Milliblæðingar eru mjög algengar þegar pillur eru teknar og sérstaklega af þessari gerð.  Í lyfjabókinni segir að allt að 50% kvenna verði varar við milliblæðingar og í 20-30% tilvika geta blæðingar varað lengur en venjulega.  Eftir því sem pillurnar eru teknar lengur minnka oftast milliblæðingarnar en það er mjög einstaklingsbundið.  Munurinn á þessum tveimur pillum er sá að Cerazette inniheldur eitt hormón, prógestagen, en Yasmin er samsett úr tveimur hormónum.  Cerazette hentar því konum með barn á brjósti en Yasmin má ekki taka á meðan að barnið er á brjósti.  Ég hvet þig til að bíða og sjá hvort milliblæðingarnar minnki ekki eða jafnvel hætti.  Ef ekki og þetta er orðið óbærilegt er spurning hvort þú eigir að huga að öðrum getnaðarvörnum
Hvað varðar túrtappa þá er þér óhætt að nota þá ef allt er vel gróið eftir fæðinguna.  En hefur þú kynnt þér álfabikarinn/mánabikarinn?  Hann er gerður úr gúmmíkenndu sílíkoni og veldur því ekki ofnæmi.
Gangi þér vel

Kveðja
Málfríður Stefanía Þórðardóttir
Hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir
03.04.2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.