Er bólfestublæðing það sama og hreiðurblæðing?

28.06.2009

Mig langar að spyrja hvort bólfestublæðingar séu það sama og hreiðurblæðingar? Ég er alveg orðin rugluð í þessu, ef eggið er 3-4 daga á leið í legið þá skil ég ekki alveg af hverju hreiðurblæðingar eru á svipuðum tíma og blæðingar eiga að hefjast? Annað, finnur kona fyrir því þegar eggið er að ferðast upp í legið?

Vona að þið getið frætt mig um þetta:)


Sæl og blessuð!

Bólfestublæðing og hreiðurblæðing er það sama. Þetta gerist ekki hjá öllum konum en líklega hjá 20-30%. Hreiðurblæðing verður venjulega aðeins fyrr en blæðingar áttu að hefjast en stundum um það leyti sem blæðingar áttu að hefjast. Þetta gerist yfirleitt 5-10 dögum eftir getnað þegar litli fósturvísirinn er að koma sér fyrir í leginu. Hreiðurblæðing er yfirleitt ljósrauðir, bleikir eða ljósbrúnir blettir. Eggið frjóvgast yfirleitt í eggjaleiðaranum og ferðast svo niður í legið þar sem það kemur sér fyrir, yfirleitt alveg án þess að konan finni nokkuð fyrir því.


Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.