Af hverju ekki hreyfing

17.04.2013
Ég á 3ja vikna gamla æðislega stelpu og aðra jafn æðislega 2j ára. Ég keypti mér kort í ræktinni og er byrjuð í áköfum brennslu og styrktaræfinga-tímum. Vinkona bnti mér á ad þad væri "bannað" og eftir smá googl komst ég að því að almennt er miðað við 6 vikur (jafnvel 3 mán). Nú langar mig ekki að hætta og spyr ykkur af hverju miðað er við 6 vikur og hvort og þá hvernig slæmt sé ad byrja fyrr. Tek fram að það eru hopp í tímanum. Með von um svör.
Kv. Auður


Sæl vertu og bestu þakkir fyrir spurninguna.
Það er einstaklingsbundið eins og flest annað hversu snemma hver og ein kona treystir sér til að byrja þjálfun eftir fæðingu. Á það hefur verið bent að gott sé að byrja fljótlega eftir fæðingu að gera æfingar fyrir grindarbotn og fara í stuttar göngur til að koma blóðinu á hreyfingu og styrkja hjarta og lungu. Vegna áhrifa meðgönguhormóna á liðbönd og brjósk (þau mýkjast upp á meðgöngu) í líkamanum er þó varla hægt að mæla með því að byrja stranga þjálfun eða hlaup og hopp fyrr en líkaminn hefur náð að jafna sig eftir fæðinguna og eins og þú kemur inn á hefur oft verið miðað við að það sé sex vikum eftir fæðingu.
Fyrst að þú ert nú þegar byrjuð í leikfimi og vilt gjarnan halda því áfram getur þú rætt það við þjálfarann hvort þú getir ekki sleppt því að hoppa til að byrja með og gert stigæfingar í staðinn. Það ætti að vera auðvelt að koma því við og allir ættu að hafa skilning á því að rétt sé að fara rólega af stað eftir barnsburð.
Á síðunni
babycenter.com eru góðar leiðbeiningar og önnur grein hér á sömu síðu sem einnig ætti að svara spurningum þínum.
Gangi þér vel


Bestu kveðjur
Björg Sigurðardóttir
ljósmóðir
7. apríl 2013