Afrit af mæðraskrá

21.11.2005

Sælar!

Mig langaði að vita hvar maður getur fengið afrit af meðgönguskýrslunni
sinni? Ég átti í ágúst og mig langar að eiga skýrsluna. Er eitthvað mál
að fá skýrslu frá fyrri fæðingu sem var árið 2001?

Kveðja, móðir tveggja barna.

...............................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Mæðraskráin er geymd á þeirri stofnun sem þú fæddir á og fyrst þú tekur ekki fram hvar hvar þú fæddir þá geng ég út frá því að það hafi verið á Landspítalanum. Þar eru afrit af mæðraskrá eingöngu afgreidd á ritaramiðstöð á skrifstofu Kvennadeildar. Afrit er hægt að afhenda 3 mánuðum eftir fæðingu. Fyrsta þarf að hringja Sjúkraskrársafn LSH í Vesturhlíð, s. 543 8380 eða 543 8381 og panta afritið sem síðan er sent á skrifstofu Kvennadeildar, þar sem hægt er að nálgast það á virkum dögum, fyrir hádegi. Þegar náð er í afritið þarf að sýna skilríki. Eingöngu móðir getur fengið afrit. Ef móðir og faðir eru skráð í sambúð getur faðir þó fengið afrit. Tekið er vægt gjald fyrir afrit af mæðraskrá.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðngur,
21. nóvember 2005.