Spurt og svarað

22. nóvember 2005

Andleg vanlíðan eftir barnsburð

Sæl!

Ég ætlaði að lesa mér til um andlega líðan eftir barnsburð en það stendur að efnið sé í vinnslu. Ég verð að fá að segja hvernig mér líður því ég á erfitt með að tjá mig um þetta við fjölskylduna mína og mig vantar ráðleggingar. Ég eignaðist barn fyrir rúmum mánuði og það er yndislegt í alla staði. Seinni part meðgöngunnar fór mér að líða mjög illa, sambandið við faðirinn var ekki gott og ég fékk lítinn skilning og stuðning frá honum, við bjuggum saman. Svo eftir fæðinguna varð ég frekar veik, fékk sýkingu og þurfti að vera á sýklalyfjum sem fóru vægast sagt illa í mig. Brjóstagjöfin gekk ekki vegna þess hve ég var illa á mig komin. Ég er nýorðin frísk núna, hef verið hjá foreldrum mínum síðan ég átti barnið og þau hafa hjálpað mér mikið við að hugsa um það. En alveg frá fæðingu barnsins þá hefur mér liðið illa þó að ég sýni það ekki, vegna þess að ég skammast mín fyrir það. Ég á erfitt með að tengjast barninu, er með skelfilega sektarkennd útaf því, finnst ég misheppnuð móðir og stundum langar mig að hlaupa frá þessu öllu saman hversu ömurlegt sem það hljómar, þó ég myndi auðvitað aldrei gera það! Þó að ég eigi erfitt með að tengjast því þá elska ég það, æi það er svo erfitt að útskýra þetta því ég skil þetta varla sjálf. Ég hef misst fóstur tvisvar sinnum og var þá mjög ung en samt þráði ég þessi börn og hef átt erfitt vegna þess. Svo þegar ég loksins eignast barn þá gerist þetta! Ég skammast mín svo mikið fyrir þetta og þori ekki að nefna þetta við nokkurn mann.Ég vona að þú getir hjálpað mér og sagt mér hvað ég get gert. Ég vil ekki að þetta bitni á barninu mínu, ég held að það finni það á sér að mér líði illa.

Með fyrirfram þökk.

........................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Ég vil byrja á því að óska þér til hamingju með barnið! Hins vegar er leitt að heyra hvað þér líður illa, en aftur á móti frábært, að þú skulir hafa tjáð þig við okkur um þessa vanlíðan þína. Þú mátt vera viss um, að hún er ekkert til að skammast sín fyrir. Þú ert ekki ein um að finna fyrir vanlíðan eftir barnsburð en margar konur þora ekki að nefna það við nokkurn mann, vegna sektarkenndar yfir að líða eins og þeim líður. Mér finnst lýsing þín gefa vísbendingu um hugsanlegt þunglyndi, sem oft er nefnt fæðingarþunglyndi og getur komið eins og þruma úr heiðskýru lofti yfir konur, í tengslum við barnsburð. Í þínu tilfelli virðist þó vera fleira, sem hefur áhrif á þig eins og fyrri fósturlát og erfitt samband við barnsföður. Þú þarft sannarlega á hjálp að halda.

Þar sem barnið þitt er aðeins fjögurra vikna gamalt færð þú væntanlega reglulega heimsókn hjúkrunarfræðings frá Ungbarnaverndinni. Ég ráðlegg þér að ræða um þessa vanlíðan þína við hana og sjá, hvort þið getið ekki í sameiningu fundið út hvers konar hjálp hentar þér best. Hún getur einnig frætt þig um vanlíðan eftir fæðingu og fæðingarþunglyndi og hvaða hjálparráð eru til.

Með von um, að þú fáir skjóta og árangursríka hjálp.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.