Andleg vanlíðan, er með 9 mánaða gamalt barn

14.06.2005

Ég eignaðist stelpu þann 14. september 2004, átti erfiða meðgöngu andlega en var eldhress líkamlega. Ég lenti í fæðingarþunglyndi og var sett á lyf og er enn á þeim og er mjög sátt. En litla stelpan mín er að verða 9 mánaða og ég hætti með hana á brjósti 7 og ½ mánaða. Ég veit ekki hvað er í gangi en ég er mjög uppstökk, flökurt, hárið á mér er eins og þegar ég varð ólétt sem sagt óviðráðanlegt og húðin á mér er mjög slæm og ég var ekki með slæma húð fyrir, en fékk eina og eina bólu á meðgöngunni. Ég er á lykkjunni og ég tók þungunarpróf í dag bara til að vera viss en það var neikvætt. Ég byrjaði á blæðingum þegar stelpan mín var 2 mánaða og hef verið næstum á reglulegum blæðingum síðan, fyrir utan þegar ég fékk lykkjuna þá var smá vesen en allt í góðu núna. Ég er ný búin á blæðingum og mér líður mjög asnalega, ég fékk fyrirtíðarspennu áður en ég varð ófrísk en það hætti alltaf um leið og ég byrjaði á blæðingum og núna er ég með fyrirtíðarspennu hvort sem ég er á blæðingum eða ekki :) Hjálp áður en ég geri allt brjálað í kringum mig. Takk.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Ég ætla að vona að þú sért ekki búin að gera alla bilaða í kringum þig. Ég veit að það er verulega óþægilegt að líða svona en ég get fullvissað þig um að það tengist ekki því að brjóstagjöfinni lauk fyrir einum og hálfu mánuði síðan. Mér heyrist þú þurfa að taka þig í gegn. Huga að mataræðinu og jafnvel að aka inn bætiefni ef þú þarft þess. Taka upp reglulega hreyfingu sem er að einhverju leyti úti við, t.d. fara í gönguferðir. Það er mjög mikilvægt að þú tryggir þér næga og helst nokkuð reglulega hvíld. Kannski þarftu að finna þér eitthvað verkefni sem þú getur einbeitt þér að. Það er stundum á þessum tíma í lífinu að einbeitingin beinist of mikið að vitlausum hlutum. Þú þarft að breyta um farveg og áhersluatriði. Vona að þetta hjálpi eitthvað. Ekki hika við að leita þér hjálpar hjá heimilislækni eða geðlækni ef þessi vanlíðan hættir ekki.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. júní 2005.