Að hafa ekki stjórn á hægðum eftir fæðingu

30.11.2007

Sælar ljósmæður

Ég fæddi mitt fyrsta barn fyrir 3 dögum síðan. Fæðingin var mjög löng og erfið og það þurfti að klippa töluvert og sauma en ég er öll að koma til og finn dagamun á mér. Þegar ljósmóðirin var að sauma mig sagði hún að ég væri með gyllinæð og ég finn vel fyrir henni Ég er búin að hafa hægðir og það var frekar vont en verst er að mér finnst ég ekki hafa stjórn á þeim, þ.e. ég þarf að hlaupa beint á klósettið þó að ég sé ekki með niðurgang.

Ég finn að ég er rosalega bólgin í kringum endaþarminn og það er eins og ég sé hálf tilfinningalaus þar. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af eða kemur þetta ekki til með að lagast þegar bólgan minnkar ?

Kv. nýbökuð mamma


Komdu sæl.

Það er vel þekkt að grindarbotnsvöðvar séu slakir eftir meðgöngu og, ég tala nú ekki um, erfiða fæðingu.  Það veldur því svo að erfitt getur verið að hafa stjórn á þvagi, hægðum og lofti.  Þetta jafnar sig með tímanum en þú getur haft áhrif til góðs með því að gera grindarbotnsæfingar oft á dag.  Vertu samt þolinmóð því það getur tekið margar vikur og jafnvel mánuði að verða jafngóð aftur.

Gyllinæði jafnar sig líka með tímanum en haltu endilega áfram að halda hægðunum mjúkum og nota krem og stíla eftir þörfum.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
30.11.2007.