Spurt og svarað

30. nóvember 2007

Að hafa ekki stjórn á hægðum eftir fæðingu

Sælar ljósmæður

Ég fæddi mitt fyrsta barn fyrir 3 dögum síðan. Fæðingin var mjög löng og erfið og það þurfti að klippa töluvert og sauma en ég er öll að koma til og finn dagamun á mér. Þegar ljósmóðirin var að sauma mig sagði hún að ég væri með gyllinæð og ég finn vel fyrir henni Ég er búin að hafa hægðir og það var frekar vont en verst er að mér finnst ég ekki hafa stjórn á þeim, þ.e. ég þarf að hlaupa beint á klósettið þó að ég sé ekki með niðurgang.

Ég finn að ég er rosalega bólgin í kringum endaþarminn og það er eins og ég sé hálf tilfinningalaus þar. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af eða kemur þetta ekki til með að lagast þegar bólgan minnkar ?

Kv. nýbökuð mamma


Komdu sæl.

Það er vel þekkt að grindarbotnsvöðvar séu slakir eftir meðgöngu og, ég tala nú ekki um, erfiða fæðingu.  Það veldur því svo að erfitt getur verið að hafa stjórn á þvagi, hægðum og lofti.  Þetta jafnar sig með tímanum en þú getur haft áhrif til góðs með því að gera grindarbotnsæfingar oft á dag.  Vertu samt þolinmóð því það getur tekið margar vikur og jafnvel mánuði að verða jafngóð aftur.

Gyllinæði jafnar sig líka með tímanum en haltu endilega áfram að halda hægðunum mjúkum og nota krem og stíla eftir þörfum.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
30.11.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.