Að koma sér í form eftir fæðingu

29.07.2005

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég á litla 4 mánaða snúllu og allt gengur svaka vel með hana. En mig er farið að langa að koma mér í betra form en ég er svo hrædd um að missa niður mjólkina ef ég fer að reyna of mikið á mig. Ég er dugleg að fara út að labba með vagninn og passa mataræðið en er mér óhætt að taka inn t.d. Nupo létt?

Kveðja.

..............................................................................

Sæl og blessuð.

Ég mæli eindregið með því að þú notir bestu megrun sem náttúran hefur gefið okkur. Brjóstagjöf og ekkert annað. Á fyrstu 3 mánuðum eftir fæðingu léttast mjólkandi konur ekki hraðar en mæður sem nota þurrmjólk en á milli 3 og 6 mánuð léttast þær mun hraðar og eftir það líka. Á milli 9 og 12 mánuði eyðist fita af stöðum á mjólkandi mæðrum sem hún gerir ekki annars. Þú getur fækkað kaloríum um 300 frá því sem var fyrir fæðingu og ættir ekki að fara undir 1800 kaloríur á dag. Vel nærð kona getur lést um 0,45 kg á viku jafnframt því sem mjólkurframleiðsla eykst. Það besta er að léttast jafnt og þétt og eins og líkaminn vill stjórna því en ekki í rykkjum. Líkamsþjálfun og allar æfingar eru í lagi en mundu að byrja rólega. Þegar líkaminn hefur vanist þjálfuninni má æfa 6 sinnum í viku og smáauka erfiðið. Það er ekki sniðugt að nota megrunarefni sem gera fæðið næringarefnafátækara eða svipta móður mikilvægum efnum. Það er auðvitað í lagi að taka inn Nupo létt en það er þá bara ofan á allt annað fæði sem þú borðar.  Þetta á eftir að ganga flott.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. júlí 2005.