Spurt og svarað

10. desember 2014

Aðskilnaðarkvíði

Sælar ljósmæður. Til að byrja með vil ég þakka fyrir frábæran vef sem ég leitaði mikið til á meðgöngunni og sængurlegunni. Ég á 9 vikna dásamlegan strák sem er heilbrigður og sprækur. Við foreldrarnir höfum planað að fara á jólahlaðborð með vinafólki og málið er að ég verð mjög kvíðin þegar ég hugsa til þess að fara frá stráknum mínum þetta lengi (hann verður þá 11 vikna). Ég hef skilið hann eftir hjá pabba sínum og farið út í búð og þess háttar og það er allt í lagi. Drengurinn drekkur á um það bil 2 tíma fresti á daginn/kvöldin en á það stundum til að vera enn smá óreglulegur með tímann. Mér finnst það bara vera öðruvísi að skilja hann eftir hjá fjölskyldu minni og við förum bæði frá honum þar til að hann verður svangur aftur. Ekki það að fjölskylda mín sé eitthvað óhæf til að hugsa um hann, þvert á móti eru þau frábær með hann. Ég hef bara áhyggjur af því að njóta mín hvort sem er ekkert á jólahlaðborðinu. Ég vil ekki prufa að gefa honum pela því að ég er svo hrædd um að hann hafni svo brjóstinu og það er mér svo mikilvægt að brjóstagjöfin haldi áfram að ganga eins vel og hún gerir núna.  Á hinn bóginn hugsa ég að ég hafi bara rosalega gott af því að hugsa eingöngu um mig í smá stund og að ég ætti bara að hrista þessa viðkvæmni af mér. Svo finnst mér rosalega erfitt að heyra þegar ég segi einhverjum frá áhyggjum mínum og fæ bara svarið: "iss hvað er þetta, láttu barnið bara fá pela og njóttu þín". Kærastinn er fullkomlega skilningsríkur og vill bara að ég fái að stjórna þessu alveg. Eru allar þessar tilfinningar eðlilegar eða er ég að gera allt of mikið mál úr þessu?
Kær kveðja með fyrirfram þökk. áttavillta móðirin


Kæra áttavillta móðir, það er ekki neitt óeðlilegt við að hugsa svona. Þið eruð enn svo tengd enda varla búið að klippa á naflastrenginn ennþá. Ef þér er illa við að gefa pela þá eru ýmis önnur ráð eins og til dæmis að staupa hann, börn á hans aldri eru ótrúlega flink að drekka úr glasi. Svo er líka hægt að gefa honum úr sprautu. Þú verður væntanlega ekki það lengi í burtu svo að líkast til er bara um eina til tvær gjafir að ræða. Ég skil vel að þú verðir með hugann hjá honum en hann mun ekki muna eftir því að vera skilinn eftir í góðum höndum í nokkrar klukkustundir. Þetta er miklu  erfiðara fyrir þig en hann. En þú verður algjörlega að finna það hjá sjálfri þér hvort þú ert tilbúin til að fara eða ekki, fyrsta skiptið sem þú skilur hann eftir í pössun verður alltaf pínuerfitt og það er mjög misjafnt hvenær konur eru tilbúnar til þess.
 Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
10. des. 2014
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.