Bjúgur á fótum eftir fæðingu

26.06.2007

Sælar ágætu ljósmæður!

Mig langar til að spyrja hvað veldur og hvort eitthvað sé hægt að gera við slæmum bjúg á fótum eftir barnsburð. Barnið er viku gamalt og brjóstagjöfin að verða reglubundin og fín. Ég velti fyrir mér hvort vatnslosandi drykkir o.fl. geti minnkað mjólkina.

Þakkir fyrir góðan vef og fín ráð.


Sæl og blessuð.

Það getur tekið dágóðan tíma fyrir líkamann að losa sig við bjúg eftir fæðinguna. Það er í sjálfu sér ekkert slæmt við það. Hann fer á endanum. Bjúgur getur meira að segja aukist fyrst áður en hann fer að minnka. Það er alltaf talið frekar varasamt að fara í stórtæk ráð til að losa bjúg vegna áhrifa sem það getur haft á mjólkurframleiðslu og eins og fram hefur komið er það alls ekki nauðsynlegt. Saklaus húsráð eru þó talin í lagi. Ég nefni eitt sem hefur hjálpað mörgum. Borðaðu vatnsmelónu og mundu að bryðja vel steinana. Það eru þeir sem eru aðal „trixið“.

Gangi þér vel. 

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. júní 2007.