Blæðing ennþá 6 vikum eftir fæðingu

22.12.2005

Ég átti barn fyrir 6 vikum og það blæðir ennþá hjá mér..... er það eðlilegt?  Hvað getur það verið sem orsakar blæðingar svona lengi?

..............................................................................

 Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Blæðingarnar eiga að minnka fljótlega eftir fæðingu, er rauð í byrjun en lýsist svo þegar dregur úr blæðingunni.  Stundum getur komið smá útferð ca. 4 vikum eftir fæðingu sem getur verið rauðleit eða jafnvel aðeins brúnleit.  Þá er hrúðrið að fara af sárinu sem fylgjan "skildi eftir" í leginu.

Það er ekki eðlilegt ef það er enn fersk blæðing 6 vikum eftir fæðingu.  Það getur verið að legið sé ekki að dragast nógu vel saman eða eitthvað hafi orðið eftir af fylgjunni.  Það er langbest fyrir þig að panta þér tíma hjá kvensjúkdómalækni og láta líta á þig.

Gangi þér vel!

Jólakveðjur,
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingu
22.desember 2005