Spurt og svarað

05. mars 2004

Blæðingar eftir barnsburð

Nú eru liðnir 9 mán. frá því að ég átti og ég hef ekki haft blæðingar ennþá. Málið er það að við hjónin erum orðin vel stálpuð og okkur langar að fara af stað í annað barn strax (ég býst við að margar súpi hveljur núna). Er einhver leið fyrir mig að geta séð út hvort eða hvenær ég hef egglos þannig að það sé auðveldara að fylgjast með heppilegasta tímanum?

.........................................................................................................................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina!

Til hamingju með barnið. Þú minnist ekkert á hvort þú hafir barnið þitt á brjósti eða ekki. En brjóstagjöf hefur áhrif á að blæðingar hefjist eftir barnsburð. Þrátt fyrir að þú sért ekki farin að hafa blæðingar eftir barnsburðinn þá getur orðið egglos. Egglos stjórnast meðal annars af kvenhormónunum LH og FSH. Það eru nokkrar aðferðir til þess að fylgjast með því hvort og hvenær egglos á sér stað. Ein af aðferðunum er að mæla líkamshita þinn. Það er mikilvægt að líkamshitinn sé mældur á hverjum morgni og hann skráður. Snemma í tíðarhring er líkamshitinn nálægt 36,5°c að morgni mælt í endaþarm. Þegar nær dregur egglosi hækkar morgunhitinn dag frá degi og er yfir 37°c við egglosið. Rætt er um bók sem segir frá hitastigsaðferðinni á heimasíðunni www.tilvera.is .
Meðal tíðarhringur er 28 dagar. Fyrsti dagur tíðahrings er fyrsti dagur blæðinga. Egglos er að jafnaði 12-16 dögum fyrir fyrsta dag nýs tíðahrings. Önnur aðferð til þess að finna út egglos er að nota mæla sem fást í apótekum. Þetta eru strimlar sem nema hækkað LH (gulbúsörvandi hormón) í þvagi. En það hormón hækkar  rétt fyrir egglos. Þegar nær dregur egglosi eykst slímmyndun frá leggöngum og slímið verður þynnra.

Gangi þér vel, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, 05.03.2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.