Spurt og svarað

20. september 2006

Blæðir með hægðum

Sælar stelpur!

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir frábæran vef, hef fengið svör við mörgum spurningum með því að skoða síðuna ykkar:)

Langaði að leita ráða hjá ykkur fyrst þar sem maður er hálf læknafælinn. Þannig er mál með vexti að eftir að ég átti dóttur mína í byrjun júní hefur blætt með hægðum hjá mér annað slagið. Fyrst var það þannig að það blæddi aðeins þegar hægðirnar voru harðar (tek það fram að ég rifnaði milli opa í fæðingunni) og mér fannst eins og ég hefði verið saumuð of mikið (tilfinningin var eins og endaþarmsopið væri of þröngt og rifnaði smá). Núna síðustu daga hef ég tekið eftir meiri blæðingu og jafnvel þótt hægðirnar séu mjúkar. Tek það fram að ég finn ekki fyrir neinum einkennum gyllinæðar, finn engan hnúð við endaþarm og enginn óþægindi nema á klósettinu. Nú spyr ég ykkur fróðu konur: Hvað í ósköpunum getur þetta verið? Gæti þetta samt verið gyllinæð? Og ætti ég kannski að prufa að kaupa svona gyllinæðarkrem og nota það? Missi svefn yfir tilhugsuninni um að þurfa að glenna rassinn framan í einhvern lækni :)

Með fyrirfram þökk, rassablæðarinn.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Ég held að það borgi sig fyrir þig að láta skoða þig hjá lækni þó að þér þyki það óhugsandi. Þú getur leitað til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis. Læknum finnst ekkert mál að skoða svona vandamál þó að þér þyki það óþægilegt. Það er ómögulegt að segja til um hvort þetta er gyllinæð eða eitthvað sem tengist rifunni frá því í fæðingunni og því er best fyrir þig að fá skoðun hjá lækni og vonandi lausn á vandanum.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.