Bólga við þvagrás, 11 dögum eftir fæðingu

19.06.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Þannig er mál með vexti að ég átti mitt fyrsta barn fyrir 11 dögum síðan. Ég rifnaði alveg milli opa og var spöngin öll saumuð. Það hefur gróið vel held ég en síðustu daga hef ég fundið fyrir óþægindum í kringum þvagrásina, er bólgin þar og mjög aum en rifnaði ekkert þar. Úthreinsunin hefur minnkað aðeins og ég hef ekki tekið eftir verri lykt eftir að ég bólgnaði þarna. Er þetta eðlilegt eða þarf ég að leita til læknis? Eða er eitthvað sem ég get gert sjálf?

Kveðja, ein ráðalaus sem er ekki alveg til í að fara til læknis svona tætt að neðan:)

p.s. hef verið að nota natracare dömubindin


Komdu sæl, og til hamingju með barnið.

Vona að saumaskapurinn í spönginni grói fljótt og vel en þetta, sem þú nefnir varðandi þvagrásina, dettur mér helst í hug, að geti verið vegna núnings á þessum stað frá bindinu, sem þú notar. Þú talar hvorki um sviða við þvaglát né önnur óþægindi þeim samfara svo ég held það væri reynandi að skipta um tegund af dömubindi. Þú gætir líka prófað að setja kaldan bakstur á þetta svæði t.d. bleyta bómull í köldu vatni og láta hana liggja við þvagrásina í 10-20 mínútur. Ef þetta lagast ekki við þessi ráð og veldur þér áfram óþægindum, ættir þú að láta lækni skoða þetta nánar.

Með von um góðan árangur.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. júní 2006.