Brún útferð og vond lykt, 10 vikum eftir fæðingu

22.09.2006

Sæl og takk fyrir frábæran vef, hann hefur gagnast mér mjög mikið.

Ég átti litla dömu fyrir 10 vikum og úthreinsunin gekk hratt fyrir sig, á 3-4 vikum var allt búið, eða svo hélt ég. Á 6.-7. viku byrjaði aftur smá
blæðing og sem lauk strax fyrir utan brúna útferð með ferlega vondri lykt. Það hætti svo bara en varði í nokkra daga. Svo byrjaði þetta aftur núna. Ég hef ekki farið í eftirskoðun af því ég einfaldlega vissi ekki að ég ætti að fara í svoleiðis. Með von um skjót svör.

Ný mamma.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Ef lyktin er „ferlega vond“ eins og þú lýsir þá er rétt að þú farir í skoðun hjá lækni. Það er alls ekki nauðsynlegt fyrir allar konur að fara í eftirskoðun eftir fæðingu þó margar kjósi að gera það. Ef hins vegar það koma upp vandamál er gott að geta leitað til læknis. Þú getur annað hvort leitað til þíns heimilislæknis, kvensjúkdómalæknis eða til móttökudeildar Kvennadeildar LSH ef þú er búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. september 2006.