Spurt og svarað

18. ágúst 2009

Coombs próf

Sæl

Sælar og takk fyirr góðan vef.

Nú var ég að eignast mitt fyrsta barn fyrir þremur mánuðum. Ég er í O mínus blóðflokki og þurfti því að fara í nokkrar auka blóðprufur á meðgöngunni. Fæðingin gekk ágætlega og ég eignaðist heilbrigt barn. Hins vegar var ég að komast að því í dag að það gleymdist að gera Coombs próf og því fékk ég enga sprautu og hef í raun enga hugmynd um hvort að ég hefði þurft á sprautu að halda eða ekki. Þetta er mikið sjokk fyrir mig þar sem mig hefur alltaf langað til að eignast mörg börn.

Ég ætlaði að passa voða vel upp á þetta en hafði svo ekki rænu á því þar sem ég var keyrð í svæfingu klukkutíma eftir fæðinguna og missti þar mikið blóð. Það stóð skýrum stöfum í grænu skýrslunni minni að ég væri rhesus neikvæð (með stórum rauðum stimpli) og ég tók þetta meira að segja fram þegar ég kom upp á spítala en samt virðist þetta hafa farið forgörðum.

Tveimur dögum eftir fæðinguna, þegar ég var enn upp á spítala, spurði ég hvort prófið hefði örugglega ekki verið framkvæmt og var þá sagt að útkoman hefði greinilega verið að barnið væri í neikvæðum blóðflokki víst ég væri ekki búin að fá sprautu. Þetta var greinilega ekkert athugað fyrir mig af því að annað kom á daginn. Ég treysti þessu algjörlelga en sá svo í fæðingarskýrslunni minni sem ég fékk að sjá 6 vikum eftir fæðinguna að þar var ekkert minnst á Coombs próf. Enginn gat sagt mér afhverju svo væri. Að lokum fór ég persónulega upp í blóðbanka til að reyna að komast til botns í þessu og fékk þá loksins að vita að ekkert próf var framkvæmt. Núna erum ég og maðurinn minn að farast úr samviskubiti yfir því að hafa bara treyst á að ljósmæðurnar sæu um þetta. Mér finnst ég hafa brugðist og hryllir við að hugsa til þess að ef ég verð svo heppin að eignast fleiri börn að þá gætu þau mögulega verið í hættu út af þessum mistökum. Eitt sem gerir þetta erfiðara er að það er mjög erfitt að fá nákvæmar upplýsingar um hversu mikil áhættan er á næstu meðgöngum út af þessu. Nógu erfitt var fyrir mig að komast að því að prófið var ekki framkvæmt en nú er enn erfiðara að fá heilbrigðisstarfsfólkið til að tala hreinskilnislega um þetta. Þetta verður ekki tekið aftur en ég verð hins vegar að vita hversu mikla áhættu er ég að taka ef ég ákveð að reyna að eignast annað barn. Það er, hvað væri ég að leggja á barnið ef það yrði blóðflokkamisræmi?  Þarf einhvern tímann að enda meðgöngur snemma út af blóðflokkamisræmi? Hvaða fylgikvillar eru þegar skipt er um blóð í börnum vegna blóðflokkamisræmis?

Með von um skjót svör þar sem þessi óvissa er að fara með mig.


 

Mér heyrist á þér að það hafi gleymst að taka svokallað naflastrengsblóð við fæðingu, úr því er svo skoðað í hvaða blóðflokki barnið er og coombs prófið.

Ef gleymist að taka naflastrengsblóðið þá þarf að taka blóðprufu úr barninu til að athuga flokkinn. Ef að barnið er rhesus pósitíft þarft þú að fá sprautu sem er einskonar forvörn vegna næstu meðgöngu en ef barnið er rhesus negatíft þá þarftu enga sprautu.

Þú skalt ræða við hjúkrunarfræðing eða heilsugæslulækni á þinni heilsugæslu um þetta og það ætti ekki að vera vandamál að leysa þetta.

Kveðja
Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
18. ágúst 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.