Er hægt að fá að vera á meðgöngudeildinni vegna þunglyndis?

15.08.2007

Ég er búin að þjást af miklu þunglyndi og kvíða alla meðgönguna. Ég hef verið þunglynd í mörg ár en þetta er verra núna á meðgöngunni. Ég hef ekki getað hætt á þunglyndislyfjunum og líður oft alveg óbærilega, er mjög einmana, grátgjörn og vansæl. Nú er einn mánuður eftir af þessu hjá mér. Mér líður ekki vel heima, en nú þarf ég að þrauka þessar fjórar vikur í viðbót. Ég var að heyra um meðgöngudeild á Landspítalanum. Er hægt að fá að vera á meðgöngudeildinni vegna þunglyndis? Eða er þetta einungis fyrir konur með líkamlega kvilla tengda meðgöngunni? Ég ætti ekki í vandræðum með að fá vottorð hjá geðlækni eða ljósmóður, mig bara langar alls ekki að vera lögð inn á geðdeild vegna meðgönguþunglyndis.


Sæl mín kæra og takk fyrir fyrirspurnina!

Talaðu við ljósmóðurina þína og athugaðu hvort hún tali ekki við lækna meðgöngudeildarinnar varðandi hvíldarinnlögn. Það er ekkert að því. Það getur oft hjálpað til að fara í annað umhverfi. Mæli með því að þú gerir þetta sem fyrst.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,

Sigrún E.Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. ágúst 2007.