Daglúrar og blæðingar!

04.02.2015

Sæl og takk fyrir frábæran vef. Ég er að velta fyrir mér 2 spurningum. 1. Strákurinn minn er 3,5 mánaða hefur bara verið á brjósti og gengur vel, þyngist vel. Hann sofnar alltaf um 20-21 á kvöldin vaknar 1 sinni til að drekka og vaknar alveg um 7. Áhyggjur mínar eru daglúrinn, þeir eru max 40 mín. í senn og stundum líða 4 tímar á milli lúra er það eðlilegt?
2. Ég fór í keisara og úthreinsunin var í 8 vikur svo kom pása í 2 vikur og þá byrjaði ég á blæðingum í 7 daga. Nú eru liðnar 6 vikur frá blæðingum, spurningin er, eru blæðingar óreglulegar með barn á brjósti? Eru þær ekki eins og tíðahringurinn 21-28 daga millibili frá fyrstu blæðingum? Fyrirfram þökk.

 
Heil og sæl, Svarið við fyrri spurningunni er - já þetta er eðlilegt. Börn eins og fullorðnir eru jafn misjöfn og þau eru mörg með það hvað þau þurfa að sofa mikið og hve oft. Ef að sá stutti er ánægður og dafnar vel er engin ástæða til að hafa áhyggjur. Hann sefur vel á næturnar og það er aðalmálið.
Spurning 2. Já blæðingar geta verið óreglulegar fyrst eftir fæðinguna og meðan á brjóstagjöf stendur. Sumar konur byrja ekki á reglulegum blæðingum fyrr en þær hafa dregið úr eða hætt brjóstagjöfinni. En mundu það að egglosið er alltaf 14 dögum á undan blæðingum svo að þú getur verið orðin frjó þrátt fyrir að reglulegar blæðingar hafi ekki byrjað. Það er því klókt að nota getnaðarvörn ef þú vilt ekki eignast annað barn strax. Gangi þér vel áfram!!


Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
4.feb.2015