Depurð og pirringur

26.11.2009

Góðan dag.

Málið er að ég er með 3 mánaða barn, stelpu, allt hefur gengið mjög vel nema mér finnst ég bara svo innilokuð oft, kemst lítið í burtu (nánast ekkert) og ég er farin að upplifa sjálfa mig svo reiða og fúla - er skapvond og pirruð, langar ekki að hugsa um barnið, langar jafnvel að meiða það þegar það grenjar eða eitthvað, langar til að vera harkaleg, það er hræðilegt!  Mér finnst ég stundum vera að springa.  Þegar ég hugsa um það þá snýst allt um að gera það sem þarf og allar skyldurnar fylla dagana en ekkert eftir til að hvíla sig eða gera eitthvað án þess að vera með áhyggjur - ef ég fer eitthvað er það til að útrétta og ég er alltaf að flýta mér og í stresskasti. Nú finnst mér að barnið sé farið að finna fyrir þessu, sefur verr og það gerir mig meira pirraða. Ég á erfitt með að biðja um hjálp. Maðurinn minn vinnur mikið, kvöld og helgar líka. Mig langar að vita hversu slæm áhrif þessi líðan hefur á barnið mitt?  Stundum hef ég hvæst á það og það farið að gráta - sé svo eftir því og er með kvíða yfir að eyðileggja barnið og gera það óöruggt!  Spurning hvort að ég verði að minnka brjóstagjöf og gefa þurrmjólk í staðinn til að komast eitthvað í burtu. Hversu hættulegt er það fyrir barnið?  Er ég sú eina sem upplifir svona reiði og tilfinningar gagnvart barninu?

Með von um svör


Komdu sæl

Svona depurð er ekki óalgeng eftir fæðingu og allar þær tilfinningar og hugsanir sem þú lýsir eru ótrúlega algengar, þú ert ekki ein um þetta.  Þú þarft hinsvegar að leita þér hjálpar.  Að minnka brjóstagjöf er ekki fyrsta skrefið heldur að vinna með þína líðan.  Ég ráðlegg þér að ræða þetta við lækninn þinn og biðja hann um hjálp, sem getur verið í formi samtalsmeðferðar, lyfjagjafar o.fl.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26. nóvember 2009.