Spurt og svarað

27. júlí 2005

Eftir keisaraskurð

Mig langar til að forvitnast. Ég fór í keisara fyrir 5 dögum og gekk allt vel.  Er ekki eðlilegt að finna smá stingi í leginu og þar þegar ég pissa og hef hægðir? Og ef það er, hversu lengi á eftir? Og eitt annað, það eru margir í kringum mig að segja mér að passa mig að lyfta engu þungu því þá gæti ég  fengið legsig.  Hvað með son minn sem er 2 ára.  En það var ekkert sagt við mig uppá spítala um það.

Gott að fá svör við þessu:)

................................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Þessir stingir sem þú lýsir eru að öllum likindum smávægilegir verkir út frá skurðinum sem ættu að lagast efti því sem frá líður.  Ef þeir fara versnandi eða ef þú færð hita, roða eða vessa úr skurðsárinu átt hiklaust að leita til læknis.  Ef þú finnur enn fyrir þessu þegar þú ferð í eftirskoðun skaltu endilega minnast á þetta við lækninn þinn. 

Það er skynsamlegt að forðast að lyfta þungu svo skömmu eftir svo stóra kviðarholsaðgerð sem keisaraskurður er því það reynir á skurðsárið.  Þú ættir að hlusta vel á kroppinn þinn og auka áreynsluna smá saman.  Það er t.d. auðveldara að setjast niður og taka snáðann þinn þannig í fangið og gefa honum knús þegar á þarf að halda en að lyfta honum upp af gólfinu. Þetta er auðvitað ekki auðvelt fyrir lítil börn að skilja þessa breytingu á aðstæðum en þau eru oft fljót að aðlagast breytingum og jafnvel færa sér þær í nyt!  Hafðu því auga með honum ef í honum býr lítill prakkari :) 

Miðað við konu sem hefur fætt um leggöng ertu jafnvel í minni hættu á að fá legsig því áreynslan og togið á grindarbotnsvöðvana eru miklu meiri í þannig fæðingu.  Það er samt sem áður mikilvægt fyrir þig að gera grindarbotnsæfingar og það er góð regla fyrir allar konur sem staðið hafa í barneignum að herða grindarbotnsvöðvana fyrst áður en þær lyfta einhverju þungu.

Með von um að þú jafnir þig fljótt og vel.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. júlí, 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.