Eftirskoðun og krabbameinsskoðun

24.03.2014
Ég er farin að huga að að fara í eftirskoðun eftir fæðingu. Stelpan er 5 vikna og ég veit að maður þarf að bíða í 6 vikur áður en maður fer í skoðun. Ég þarf svosem ekkert að fara því ég var ekkert saumuð en ætla að fara fá mér lykkjuna því frekari barneignir eru ekki á dagskrá. Ég ætlaði að nýta ferðina og fara í krabbameinsskoðun þar sem það er komin tími á mig og ekkert endilega það skemmtilegasta að þurfa að fara oftar en maður þarf í kjallaraskoðun en þá fékk ég að heyra að maður þurfi að bíða í minnsta kosti 2 mánuði áður en krabbameinsstrok væri tekið eftir fæðingu því annars gæti niðurstaðan verið röng? Er ekki rétt í því? Minnir að ég hafi farið þegar eldri stelpan var 9 vikna og farið í krabbameinsskoðun í leiðinni en ég bara er hreinlega búin að gleyma því! Ég get svosem alveg beðið í tvo mánuði til að þurfa ekki að koma aftur og nota smokkinn í staðinn!Komdu sæl.
Ég hafði samband við tvo fæðinga- og kvensjúkdómalækna til að athuga hvenær þeir mæla með að fara í krabbameinsstrok eftir fæðingu. Þeir sögðu báðir að æskilegast væri að bíða í 3 mánuði eftir fæðingu til þess að niðurstaðan yrði sem marktækust. Lykkjuna er hægt að setja upp 6 vikum eftir fæðingu ef allt er eðlilegt. Ég myndi því mæla með því að fara 3 mánuðum eftir fæðingu og þá getur þú bæði látið taka strok og setja lykkjuna upp.


Með kveðju,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. mars 2014.