Spurt og svarað

02. janúar 2006

Egglos, með barn á brjósti

Sæl!

Ég var að spá...

...eignaðist barn í október s.l. en er ekki ennþá farin að hafa blæðingar. Hvernig get ég fundið út hvenær ég er með egglos?

.......................................................................................

Mig langar að vita hvað maður getur gert til að verða óléttur með barn á brjósti. Nú getur maður ekki fylgst með blæðingunum, er alla vega ekki enn byrjuð. Get ég notað egglosunarpróf eða er þetta bar happa glappa þegar konu verða óléttar með barn á brjósti?
Er eina lausnin kannski bara að stunda kynlíf á hverjum degi?

.......................................................................................

Sælar og blessaðar og takk fyrir að leita til okkar!

Ef kona er með barn eingöngu á brjósti og gefur því líka á næturnar, þá er brjóstagjöf mjög góð getnaðarvörn. Um leið og draga fer úr gjöfunum, barnið hættir að drekka á næturnar og fer að borða fasta fæðu þá getur komið egglos hvenær sem er þó að blæðingar hafi ekki komið, því egglosið kemur á undan blæðingunum.

Sem sagt, ef barnið er ekki eingöngu á brjósti þá gætir þú orðið þunguð hvenær sem er, án þess að það hafi komið blæðingar.  Ef barnið er hins vegar eingöngu á brjósti er ólíklegt að þú verðir þunguð fyrr en brjóstagjöfin fer að minnka (þó ekki útilokað!). Öruggasta leiðin ef ykkur langar að búa til barn er sennilega eins og önnur ykkar sagði að stunda kynlíf á hverjum degi, en þar sem það eru nú ekki allir sem nenna því eða hafa tíma eða tækifæri til þess, þá eru til nokkrar aðferðir til að fylgjast með því hvenær egglos verður.  Í öðru svari hér á síðunni eru þessum aðferðum lýst og ætla ég að láta þá klausu fylgja hér með:

„Egglos stjórnast meðal annars af kvenhormónunum LH og FSH. Það eru nokkrar aðferðir til þess að fylgjast með því hvort og hvenær egglos á sér stað. Ein af aðferðunum er að mæla líkamshita þinn. Það er mikilvægt að líkamshitinn sé mældur á hverjum morgni og hann skráður. Snemma í tíðarhring er líkamshitinn nálægt 36,5°c að morgni mælt í endaþarm. Þegar nær dregur egglosi hækkar morgunhitinn dag frá degi og er yfir 37°c við egglosið. Rætt er um bók sem segir frá hitastigsaðferðinni á heimasíðunni www.tilvera.is .
Meðal tíðarhringur er 28 dagar. Fyrsti dagur tíðahrings er fyrsti dagur blæðinga. Egglos er að jafnaði 12-16 dögum fyrir fyrsta dag nýs tíðahrings. Önnur aðferð til þess að finna út egglos er að nota mæla sem fást í apótekum. Þetta eru strimlar sem nema hækkað LH (gulbúsörvandi hormón) í þvagi. En það hormón hækkar  rétt fyrir egglos. Þegar nær dregur egglosi eykst slímmyndun frá leggöngum og slímið verður þynnra“. (Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur 16.03.2004.)

Gangi ykkur vel og gleðilegt ár!!

Halla Björg Lárusdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.