Endalaus úthreinsun

01.09.2006

Komið þið sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég átti stúlku fyrir 16 vikum síðan, fæðingin gekk vel en ég rifnaði talsvert. Úthreinsunin stóð í 3 vikur, byrjaði svo aftur að blæða alveg heilmikið (líktist miklum tíðablæðingum) í nokkra daga, 5 vikum eftir það og svo núna fyrir 3 vikum hélt ég að ég væri að byrja á blæðingum og var þá með dökk brúna útferð í u.þ.b viku og svo er þetta byrjað aftur núna og búið að vera af og til í 5 daga. Þetta er nánast alveg verkjalaust, finn stundum smá seiðing þegar hún er að drekka og það er ekki vond lykt af þessu. Ég er með barnið eingöngu á brjósti. Er þetta eðlilegt eða ætti ég að hafa áhyggjur af þessu? Ég á tíma hjá kvensjúkdómalækni í lok september mætti það þá bíða þangað til? Er í lagi að hafa samfarir á meðan þessi útferð er? Ég er ekki búin að fara í eftirskoðun.

Kveðja, „Nýleg mamma“.

 


 


Sæl!

Sennilega er þér nú óhætt að bíða eftir skoðuninni fyrst þetta er verkjalaust og lyktarlaust.  Gætu vel verið venjulegar blæðingar en ekki gott að segja, úthreinsun eftir fæðinguna ætti að vera lokið fyrir þó nokkru. Ræddu við þinn lækni í skoðuninni.

Gangi þér vel,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. september 2006.