Er með hárlos en ekki með á brjósti

27.05.2006

Góðan daginn!

Mig langar að spyrjast fyrir um hárlos eftir barnsburð. Guttinn minn er 3½ mánaða og er ekki á brjósti en ég er samt sem áður með mjög mikið hárlos. Er hárlos algengt eftir fæðingu og þá þegar barnið er ekki á brjósti? Hann var á brjósti í um 6 vikur. Ég hélt að hárlos væri algengt hjá þeim konum sem eru með börnin á brjósti.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Hárlos er meira en algengt eftir fæðingu. Það er staðreynd. Það kemur brjóstagjöfinni ekkert við. Þetta fyrirbæri tengist hormónum og mörgum öðrum þáttum við barnsburð. Á meðgöngunni heldur líkaminn mjög í hárið og þá missa konur miklu færri hár á dag en venjulega. Margar konur taka eftir því að hárið þykknar mjög á þessum tíma. Eftir fæðinguna snýst dæmið við. Þá losar líkaminn sig við það hár sem safnaðist með því að losa fleiri hár á dag en venjulegt getur talist. Þegar ástandið er gengið yfir er staðan svipuð því sem hún var fyrir óléttuna. Hárlos er því ekki algengara hjá konum með barn á brjósti, það er jafnmikið og hjá hinum.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. maí 2006.