Spurt og svarað

27. maí 2006

Er með hárlos en ekki með á brjósti

Góðan daginn!

Mig langar að spyrjast fyrir um hárlos eftir barnsburð. Guttinn minn er 3½ mánaða og er ekki á brjósti en ég er samt sem áður með mjög mikið hárlos. Er hárlos algengt eftir fæðingu og þá þegar barnið er ekki á brjósti? Hann var á brjósti í um 6 vikur. Ég hélt að hárlos væri algengt hjá þeim konum sem eru með börnin á brjósti.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Hárlos er meira en algengt eftir fæðingu. Það er staðreynd. Það kemur brjóstagjöfinni ekkert við. Þetta fyrirbæri tengist hormónum og mörgum öðrum þáttum við barnsburð. Á meðgöngunni heldur líkaminn mjög í hárið og þá missa konur miklu færri hár á dag en venjulega. Margar konur taka eftir því að hárið þykknar mjög á þessum tíma. Eftir fæðinguna snýst dæmið við. Þá losar líkaminn sig við það hár sem safnaðist með því að losa fleiri hár á dag en venjulegt getur talist. Þegar ástandið er gengið yfir er staðan svipuð því sem hún var fyrir óléttuna. Hárlos er því ekki algengara hjá konum með barn á brjósti, það er jafnmikið og hjá hinum.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.