Spurt og svarað

09. mars 2009

Erfiðleikar með hægðir og brjóstagjöf

Góðan dag.

Ég er 5 barna móðir og yngsta barnið mitt er 6 mánaða. Allar mínar meðgöngur og fæðingar hafa gengið mjög vel og hef ég aldrei átt við nein vandamál að stríða í sambandi við þær eins og t.d. þvagleka og þess háttar. Ég er líkamlega vel á mig komin og er í kjörþyngd. Eftir fjórðu fæðinguna tók ég eftir því að rembingur vegna hægða hvarf og gat ég þess vegna beðið í langan tíma þó að ég fyndi að ég þyrfti að losa hægðir. Eftir fimmtu fæðinguna varð sú breyting að hægðirnar þrýstast ekki niður helgur þrýstast þær á leggangavegginn og er oft erfitt að losna við þær og þegar þær losna verður oft eitthvað eftir. Oft þarf ég því að þrýsta á vegg legganganna (frá leggöngunum) svo hægðirnar rati sína réttu leið. Er einhver lausn til á þessu vandamáli og ef svo er á ég að leita til kvensjúkdómalæknis eða meltingarsérfræðings.

Varðandi öryggi brjóstagjafar sem getnaðarvarnar: heldur brjóstagjöf áframað vera örugg getnaðarvörn ef önnur skilyrði en aldur barns (þ.e. eldra en 6 mán.) eru uppfyllt? Er eitthvað sem mælir gegn því að hafa barn eingöngu á brjósti eftir 6 mánaða aldur?

Með fyrirfram þakklæti.

 

Komdu sæl.

Það er sennilega um að ræða endaþarmssig hjá þér eftir meðgöngurnar og fæðingarnar.  Þú þarft að halda hægðunum mjúkum, jafnvel fara á ákveðnum tímum á klósett, hjálpa til eins og þú ert að gera og að breyta um stellingar á klósettinu getur líka verið hjálplegt.  Grindarbotnsæfingar eru nauðsynlegar en kannski þarftu líka að tala við meltingarsérfræðing til að meta hvort eitthvað fleira þarf að gera, og auðvitað að greina vandamálið því þó mér finnist þetta sennilegt er erfitt að vera viss svona í gengum tölvuna.

Þar sem börn þurfa að byrja að fá fasta fæðu um 6 mánaða verður alltaf einhver minnkun á brjóstamjólkurframleiðslu eða breyting að minnsta kosti þannig að öryggi hennar sem getnaðarvarnar minnkar eitthvað.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
9. mars 2009.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.