Erfiðleikar með samfarir eftir fæðingu

09.06.2009

Nú er sonur minn orðinn 3 mánaða og kynlífið gengur ekki enn. Mér finnst eins og ekki sé allt eins og það eigi að vera þarna niðri, þegar ég lít í spegil til að skoða þá sé ég þvagrásaropið, en ég sá það aldrei áður en ég átti. Þegar við stundum kynlíf er eins og að það sé brík sem limurinn kemst ekki auðveldlega framhjá. Er búin að fara til kvensjúkdómalæknis í eftirskoðun en hann sagði að allt væri eðlilegt.

Ég keypti mér smartballs grindarbotnsþjálfa og ég lendi í því sama með þá, það er erfitt að koma þeim fram hjá þessari brík. Var að hugsa hvort að sú staðreynd að rembingurinn gekk mjög illa, þ.e. frá fyrsta rembingi og þar til barnið var loks tekið með sogklukku leið 3 og 1/2 tími hafi eitthvað með þetta að gera, er hrædd um að eitthvað hafi hreinlega gengið til. 


Komdu sæl.

Það er alveg eðlilegt að ytri kynfæri líti ekki alveg eins út eftir fæðingu og fyrir og þess vegna sérðu núna þvagrásaropið sem þú sást ekki áður.  Það fylgir ekki sögunni hjá þér hvort þú hafir rifnað mikið og þurft að sauma eftir fæðingu, né hvar bríkin er (að ofan eða neðan).  Það er helst eftir mikinn saumaskap að það getur myndast örvefur sem erfitt er að komast framhjá.  Aðrar breytingar á leggöngunum ættu ekki að valda svona vandræðum eins og þú lýsir.  Ég myndi ráðleggja þér að fara aftur til kvensjúkdómalæknis og lýsa þessu fyrir honum.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
9. júní 2009.