Eymsli eftir fæðingu

17.08.2006

Sæl og takk fyrir frábæran vef. 

Ég eignaðist yndislega dóttur fyrir 3 vikum síðan og úthreinsunin er eiginlega búin (hætt að blæða en enn gulleit útferð) og mér finnst ég vera að gróa ágætlega.  Nema þegar ég hef hægðir, sem ég var ansi hrædd við í fyrstu, og gekk illa, en núna er ég svo aum að ég á bágt með að sitja.  Getur verið að við saumaskapinn hafi opið minnkað, mér finnst ég vera að rifna í sundur þegar ég hef hægðir og það blæðir.  Ég fékk annarar gráðu rifu, en er ekki viss hvað það þýðir í rauninni.  Eða er þetta kannski bara eðlilegur hluti af bataferlinu?
Svo er ég með mikla sveppasýkingu, er í lagi að nota stíla til að vinna á
því svona stuttu eftir fæðingu? Eða eigið þið góð ráð varðandi það?Sæl
Sennilega gætu eymslin verið vegna gyllinæðar. Gyllinæð getur verið fyrir innan eða utan endaþarminn og valdið miklum óþægindum.  Til eru krem og stílar án lyfseðils, sem hægt er að nota við þessum kvilla. Einnig getur verið gott að nota kælibakstur.  Mikil vatnsdrykkja og trefjaneysla er einnig til bóta, ef eymslin lagast ekki við þetta þarft þú að láta kíkja á þetta hjá lækni.
Varðandi sveppalyfin, þá ætti það að vera óhætt, en ég myndi líka athuga með bindanotkun, betra er að nota náttúruleg bindi og skipta oft, heldur en bindi með plasthúð.

Tinna Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
17.08.2006.


Kveðja