Spurt og svarað

25. janúar 2008

Eymsli í endaþarmi

Halló,

ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góðan vef sem veitti mér fullt af mjög góðum og gagnlegum upplýsingum á meðgöngu og eftir fæðingu.

Fyrir rúmum 3 mánuðum fæddi ég barn, rifnaði ekki nema 2 spor í slímhúðina og gekk fæðingin eins og í sögu. Þar sem ég vissi hversu mikilvægt það væri að kúka (smekkleg umræða ég veit ...) eftir fæðingu en ekki að halda í sér þá náði ég að fara á klósettið rúmum sólahring eftir fæðingu.

Spurning mín er þessi: er það eðlilegt að endaþarmurinn sé enn aumur og pínu "víður" núna rúmum 3 mánuðum eftir fæðingu ? Ég á enn erfitt með að halda í mér þegar ég þarf að kúka og verð í raun bara að fara beint á klósettið en samt er ég mjög dugleg að gera grindabotnsæfingar og reyni að þjálfa hringvöðvann eins og ég get. Ég tek það fram að ég er ekki með gyllinæð og hef aldrei fengið.

Með von um að fá svar

kv. Nýbökuð Móðir


Komdu sæl

Þar sem fæðingin gekk svona vel og þú rifnaðir lítið finnst mér þetta svolítið langur tími að vera enn aum í endaþarmi.  Mig grunar að þú sért með gyllinæð en hún sést oft ekki utanfrá heldur er á slímhúðinni inni í endaþarminum.  Það væri því reynandi að nota proctocedyl krem og stíla í smá tíma og vita hvort það hefur einhver áhrif.

Það að þú þurfir strax að fara á klósett þegar þú finnur þörfina geta verið eftirstöðvar af fæðingunni og þarf kannski bara lengri tíma til að jafna sig.  Grindarbortnsæfingar skila oft ekki árangri fyrr en eftir nokkra mánuði svo vertu þolinmóð og dugleg að halda áfram með grindarbotnsæfingarnar.

Ef ekkert breytist til betri vegar ættir þú að leita til læknis.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
25. janúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.