Fæðingarþunglyndi

29.07.2005

Sælar !
Mig langar að spyrja ykkur hvort ég geti verið með fæðingarþunglyndi -  Það eru10
mánuðir síðan ég átti yndislegt barn. Mér finnst eins og ég hafi dregist
niður sl. mánuð eða svo, það passar reyndar við tímann síðan ég fór á mína
gömlu pillu en maður veit aldrei.
Kveðja,

---------------------------------------------------------------------------

Komdu sæl.
Það er leitt að heyra að þér finnst þú vera þunglynd.  Þunglyndi eftir fæðingu getur komið fram allt að einu ári eftir barnsburð.  Ef þú hefur fundið fyrir þunglyndi áður og jafnvel á meðgöngunni er ein meiri líkur á að fá þunglyndi eftir barnsburð.  Talið er að 14% kvenna finni fyrir þunglyndi eftir fæðingu barns.  Einkenni eins og áhugleysi, þreyta, sektarkennd, þráhyggjuhugsanir, svefnleysi, lystarleysi og kvíði geta verið einkenni um þunglyndi.  Þú talar reyndar ekki um einkenni hjá þér en það er greinlega einhverjar breytingar sem þú finnur fyrir.
Á meðgöngu og við fæðingu barns verða margar lífeðlisfræðilegarlegar, sálræðnar og félagslegar breytingar hjá konunum. Einnig geta áföll í fæðingu eða eftir fæðingu ýtt undir þunglyndi. 
Þú talar einnig um pilluna.  Sumar konur verða mjög þungar á pillunni.  Þú gætir prufað að hætta á henni eða skipta um tegund.  Ég hvet þig til að hafa samband við þinn heimilislækni eða nefna þetta við hjúkrunarfræðingin í ungbarnaverndinni.  Hjúkrunarfræðingarnir eru með spurningarlista sem þeir geta lagt fyrir þig sem eiga að segja til um hvort þú ert með þunglyndi og þá hversu alvarlegt.  Endilega láttu verða af því að tala við einhvern og fáðu ráðleggingar t.d. hvort það væri æskilegt að þú fengir þunglyndislyf eða viðtalsmeðferð.
Vonandi hjálpar þetta eitthvað.
Gangi þér vel
Kveðja

Málfríður Stefanía Þórðardóttir
Ljósmóðir og Hjúkrunarfræðingur
20.07.2005