Fæðingarþunglyndi eftir lok brjóstagjafar

10.08.2009

Sælar dömur.

Þannig er mál með vexti að konan mín getur ekki haft litla kallinn okkar á brjósti, það var allt reynt en ekkert gekk, hann er orðinn 6 mánaða en hún gafst upp þegar hann var rúmlega 4-ra. Hún meira að segja þrjóskaðist við að mjólka nokkra dropa handa honum í lokin.  Þetta var henni mikið áfall og núna getur hún ekki hætt að tala um þetta, að hún sé misheppnuð móðir, hann sé ekki nógu vel varinn núna og þetta sé eitthvað sem hafi verið tekið frá henni og hún fái aldrei til baka. Hún meira að segja grætur enn yfir þessu.  Vil taka það fram að hún er alveg hreint dásamleg móðir. Núna spyr ég gæti hún hreinlega verið orðin þunglynd vegna þessa?  Er þetta eitthvað sem er algengt?  Hvað get ég gert til að hjálpa henni og jafnvel hvort það er einhver sem hún getur talað við?  Eru einhverjir hópar þar sem konur með svipuð vandamál hittast og ræða sína reynslu, eitthvað sem ég get bent henni á?


Komdu sæll.

Að mínu mati hefur konan þín staðið sig mjög vel að vera með hann í 4 mánuði á brjósti.  Viðbrögðin sem þú lýsir gætu bent til fæðingarþunglyndis og því gæti verið gott fyrir ykkur að hitta hjúkrunarfræðinginn sem er með drenginn í ungbarnavernd og ræða þetta við hana. Gæti verið gott ef þú færir með henni og segðir frá.  Þið þurfið jafnvel að tala við heimilislækni líka sem getur svo vísað ykkur áfram til sálfræðings ef þurfa þykir.

Ég veit ekki um neina sérstaka hópa sem hafa myndast í kringum svona aðstæður en það getur verið gagnlegt að fara á mömmumorgna í kirkjunni og ræða málin við aðrar konur sem hafa mismunandi sögur að segja.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10. ágúst 2009.