Fæðingaþunglyndi, ófrísk á ný

07.07.2005

Ég á 6 mánaða gamla dóttur og er með fæðingarþunglyndi. Ég byrjaði að taka lyf (Seról) fyrir 4 vikum síðar og það er í fyrsta skipti núna að líðan fer batnandi. Fæðingarþunglyndi var greint þegar stelpan var 10 vikna gömul en ég hélt að það færi sjálfkrafa og gerði fyrst ekkert í því. Það gengur mjög vel með barnið en mér hefur fundist erfitt að vera heima og vera „heimavinnandi húsmóðir“.  Nú uppgötvaði ég að ég er aftur ólétt sem var alls ekki planað. Ég er komin 8 vikur á leið. Eins og staðan er get ég alls ekki hugsað mér að eiga annað barn strax. Bara tilhugsunin veldur mér kvíða og ég get ekki andað. En aftur á móti veit ég ekki hvort það er rétt að fara í fóstureyðingu? En hvernig á ég að hugsa um annað barn þegar mér finnst erfitt að hugsa um hitt? Maðurinn minn styður mig mjög vel en mér finnst að ég leggi allt of mikið á hann. Fyrirfram þökk fyrir svar!

............................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Mikið er leiðinlegt að heyra af vanlíðan þinni og þunglyndi.

Þú talar um að það séu 4 vikur frá því að þú byrjaðir að taka þunglyndislyfið, þannig að virknin er að koma fram í betri líðan hjá þér. Allar þessar breytingar sem fylgja meðgöngunni, fæðingunni, sængurlegunni og þeirri ábyrgð að ala barn og annast það geta valdið miklu uppnámi á tilfinningunum sem getur svo þróast yfir í fæðingarþunglyndi. Mér finnst gott að heyra að þú hefur leitað þér hjálpar og vona að þú náir enn betri líðan sem allra fyrst. Þú nefnir ekkert um samtalsmeðferð eða viðtöl með lyfjagjöfinni en ég vona að þú fáir einnig viðtöl.

Ég skil vel að það hafi veri mikið sjokk að uppgötva að þú værir barnshafandi aftur þegar þér líður svona illa. Það er mjög erfitt að taka stóra ákvörðun eins og þá að fara í fóstureyðingu þegar vanlíðanin er svona mikil. Ég ráðlegg þér því að tala við þinn kvensjúkdómalækni sem aðstoðar þig við að fá tíma hjá félagsráðgjafa sem ræðir þetta við þig frá öllum hliðum. Ég get ekki sagt til um það hvort þú eigir að fara í fóstureyðingu. Það verður að vera þín eigin ákvörðun. Þú munt ná góðu jafnvægi og það er ekki skynsamlegt að taka stórar ákvarðanir fyrr en það hefur náðst. Gott er að heyra að maki þinn styður þig vel því stuðningur maka er vissulega ómetanlegur. En mundu: góðir hlutir gerast hægt.

Með von um betri líðan og þú finnir lausn sem þú verður sátt við.

Kær kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. júlí 2005.